Samkvæmt spænska blaðinu Marca hefur Alexander-Arnold hafnað þremur samningstilboðum frá Liverpool. Enska félagið er þó enn bjartsýnt á að hann framlengi samning sinn við það.
Ef Alexander-Arnold verður ekki búinn að skrifa undir nýjan samning við Liverpool í næsta mánuði mega erlend lið byrja að ræða við hann.
Enski landsliðsmaðurinn hefur verið sterklega orðaður við Evrópu- og Spánarmeistara Real Madrid.
Auk Alexanders-Arnold renna samningar Virgils van Dijk og Mohameds Salah út eftir tímabilið.
Alexander-Arnold, sem er 26 ára, hefur leikið með Liverpool allan sinn feril. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Rauða hernum, meðal annars Englandsmeistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu.