City hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum í öllum keppnum. Liðið er átta stigum á eftir toppliði Liverpool í ensku úrvalsdeildinni og City-menn þurfa að hafa sig alla við til að tryggja sér umspilssæti í Meistaradeild Evrópu.
Guardiola hefur aldrei gengið svona illa á stjóraferlinum og hann viðurkennir að slæmt gengi City hafi mikil áhrif á hann.
„Ég verð stundum stressaður. Ég á slæma daga. Ég geri mörg mistök og dónaskapur gerir mig taugaveiklaðan,“ sagði Guardiola í viðtali við gamla markahrókinn Luca Toni á Amazon Prime.
„Missi ég mig stundum? Já. Ég sef verr og borða ekki almennilega núna. Ég verð alltaf að borða eitthvað létt. Fæ mér bara súpu á kvöldin. En ég er sami þjálfari og fyrir fimm mánuðum, sá sami og vann ensku úrvalsdeildina.“
Þrátt fyrir að á móti blási núna er Guardiola viss um að landið muni aftur rísa hjá City áður en langt um líður.
„Ef ég er í vondu skapi er það slæmt. En ég veit að það gengur yfir. Það sama á við þegar ég er glaður. Það gengur yfir,“ sagði Guardiola.
„Ég trúi því staðfastlega að þetta verði ár mikilla erfiðleika. Við verðum að finna stöðugleika. En ef við komumst áfram í Meistaradeildinni verðum við ekki auðveldur andstæðingur fyrir neinn.“
City mætir Manchester United í borgarslag í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. City er í 4. sæti deildarinnar en United í því þrettánda. Átta stigum munar á liðunum.