Körfubolti

Ekki í miklum vand­ræðum með að komast á­fram í bikar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson var frábær í Þorlákshöfn í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson var frábær í Þorlákshöfn í kvöld. Vísir/Jón Gautur

Bónus deildarliðin Stjarnan, Haukar og Álftanes tryggðu sér sæti í átta liða úrslit VÍS bikars karla í körfubolta í kvöld. Það gerði Sindri líka sem verður eina 1. deildarliðið í pottinum.

Stjörnumenn unnu 27 stiga sigur á Þór í Þorlákshöfn, 108-91. Þórsarar byrjuðu mjög vel og náð mest tíu stiga forystu en Garðbæingar sigldu síðan fram úr og unnu öruggan sigur.

Ægir Þór Steinarsson var frábær hjá Stjörnunni með 25 stig og 11 stoðsendingar. Hilmar Smári Henningsson og Jase Febres skoruðu báðir 17 stig og Orri Gunnarsson var með 15 stig.

Davíð Arnar Ágústsson var stigahæstur hjá Þórsurum með 18 stig en hann byrjaði leikinn sjóðandi heitur.

Haukarnir áttu ekki í miklum vandræðum með 1. deildarlið Breiðabliks. Þeir unnu að lokum þrjátíu stiga sigur, 109-79.

Haukarnir unnu þarna sinn annan leik í röð undir stjórn Emil Barja eftir sigurinn á Val í síðustu umferð í deildinni.

Steven Jr Verplancken var stigahæstur með 19 stig en þeir Everage Lee Richardson og Tyson Jolly skoruðu báðir 14 stig.

Álftnesingar fóru líka örugglega áfram eftir fjörutíu stiga sigri á 1. deildarlið Snæfells, 106-66.

Andrew Jones var stigahæstur með 26 stig en þeir Dimitrios Klonaras og David Okeke voru báðir með 21 stig. Klonaras tók einnig 18 fráköst.

Síðasta liðið til að komast í átta liða úrslitin var síðan 1. deildarlið Sindra sem vann tíu stiga sigur á KV í 1. deildarslag á Hornafirði, 87-77.   Donovan Fields var með 24 stig og 8 stoðsendingar fyrir Sindra í leiknum, Milorad Sedlarevic skoraði 16 stig og Gísli Þórarinn Hallsson bætti við 15 stigum. Friðrik Anton Jónsson skoraði 35 stig fyrir KV en það dugði ekki til.

Áður höfðu Valur, KR og Njarðvík tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×