Enski boltinn

Eddie Howe biður stuðnings­menn Newcastle af­sökunar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eddie Howe hefur ekki gaman að því að sjá Newcastle leka inn ódýrum mörkum. 
Eddie Howe hefur ekki gaman að því að sjá Newcastle leka inn ódýrum mörkum.  Vísir/Getty

Newcastle gerði sér ferð til Brentford í dag og tapaði 4-2. Eddie Howe, þjálfari liðsins, hefur beðið stuðningsmenn afsökunar á frammistöðunni og lofar því að þeir muni leggja sig alla fram við að gera stuðningsmenn stolta á ný.

Vegna stormsins Darragh sem ríður yfir Bretlandseyjar þessa helgina var fámennra en vanalega hjá stuðningsmönnum Newcastle. Margir hættu við að gera sér ferð suður til Lundúna en þó voru tæplega tvö þúsund Newcastle-menn viðstaddir.

Eddie var spurður eftir leik hvernig væri að sjá stúkuna hálf tóma.

„Það er alltaf erfitt að sjá stuðningsmennina eftir að hafa valdið þeim vonbrigðum. Ég vil bara þakka öllum sem mættu í dag og ég biðst innilega afsökunar á því sem við buðum upp á. Ég lofa því að við munum leggja allt á okkur til að bæta upp fyrir þetta,“ sagði þjálfarinn þá.

Öll fjögur mörk Brentford komu eftir varnarmistök hjá Newcastle, sem hefur aðeins tekið tvö stig úr síðustu fjórum leikjum og gerði 3-3 jafntefli við Liverpool í vikunni eftir að hafa komist 2-1 yfir í leiknum.

„Ég er mjög vonsvikinn með varnarleikinn. Við munum horfa á þessi fjögur mörk með mikla eftirsjá í huga. Leikurinn var í jafnvægi þannig að þetta var mjög svekkjandi. Þetta er sérstaklega pirrandi þar sem við höfum verið flottir sóknarlega og skorað fimm mörk í tveimur leikjum, en á móti fengið á okkur sjö mörk. Það er erfitt að sætta sig við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×