Rétt eins og í kjörinu til Gullboltans er Glódís ein af bestu varnarmönnunum á lista The Guardian, sem birtur er árlega.
Í umsögn um hana segir að meðlimir dómnefndar þekki vel uppgang Glódísar sem hafi með síðustu leiktíð haldið áfram að stimpla sig sem einn besta miðvörð Evrópu. Á það er bent að frammistaða hennar hafi skilað henni óvæntri tilnefning til Gullboltans, þar sem hún var önnur aðeins tveggja miðvarða sem tilnefndar voru, auk þess sem vitnað er í viðtal við hana á Vísi frá því þegar hún var tilnefnd.
The Guardian birtir árlega lista yfir hundrað bestu knattspyrnukonur heims en á eftir að segja frá því hverjar eru í efstu tíu sætunum að þessu sinni.
Ef horft er til listans frá 10.-41. sætis þá er Glódís efsti miðvörðurinn. Fjórir varnarmenn eru fyrir ofan hana en þær eru allar bakverðir; Lucy Bronze í 24. sæti, Giulia Gwinn í 26. sæti, Ona Batlle í 31. sæti og Fridolina Rolfö í 39. sæti. Gwinn er einmitt liðsfélagi Glódísar hjá Bayern og spilar einnig sem hægri bakvörður þýska landsliðsins.
Glódís varð í 22. sæti í kjörinu til Gullboltans og efst miðvarða. Aðeins þær Gwinn og Bronze urðu ofar af varnarmönnum í því kjöri.
Alls tóku 99 manns þátt í kjöri The Guardian en þar á meðal eru þjálfarar, fyrrverandi leikmenn og fjölmiðlamenn. Enginn Íslendingur er í þessum hópi en þess má þó geta að Julie Nelson, leikjahæsta landsliðskona Norður-Írlands frá upphafi, er í hópnum en hún lék á sínum tíma með ÍBV í tvö tímabil.