Forest aftur á sigurbraut en United tapað tveimur í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Morgan Gibbs-White skoraði og lagði upp í seinni hálfleik.
Morgan Gibbs-White skoraði og lagði upp í seinni hálfleik. Gareth Copley/Getty Images

Manchester United þurfti að sætta sig við annað tapið í röð þegar Nottingham Forest kom í heimsókn. Leiknum lauk með 2-3 sigri gestanna sem eru snúnir aftur á sigurbraut eftir slæmt tap í vikunni og fóru upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. 

Nottingham Forest tók forystuna strax á annarri mínútu leiksins. Markið skoraði Nikola Milenkovic með föstum skalla eftir hornspyrnu Elliot Anderson.

Rauðu djöflarnir brugðust hins vegar vel við eftir að hafa lent undir og jöfnuðu leikinn eftir rúman stundarfjórðung. Rasmus Höjlund skoraði þar sitt annað deildarmark á tímabilinu þegar hann fylgdi eftir skoti Alejandro Garnacho.

Forest var næstum því búið að skora annað skallamark á 27. mínútu en boltinn hafnaði í þverslánni. United átti svo sláarskot, beint úr aukaspyrnu Bruno Fernandes, en boltinn fann ekki netmöskvana aftur fyrr en í upphafi seinni hálfleiks.

Hann fór af stað með sömu látum og sá fyrri. Forest tók forystuna aftur á 47. mínútu. Morgan Gibbs-White var þar á ferð og hann lagði svo þriðja mark liðsins upp örskömmu síðar á Chris Wood, sem var að skora sitt tíunda mark á tímabilinu.

United minnkaði muninn í 3-2 á 61. mínútu eftir hraða skyndisókn upp hægri kantinn. Amad Diallo lagði boltann svo út á Bruno Fernandes sem skaut og skoraði.

Bruno Fernandes minnkaði muninn fyrir United en var tekinn af velli skömmu síðar.Manchester United/Manchester United via Getty Images

Á þeim tímapunkti var mikill kraftur í heimamönnum en hann dofnaði aðeins eftir markið. Forest gerði vel í að verjast og drepa leikinn niður. United lagði allt í leitina að jöfnunarmarkinu en uppskar það ekki þrátt fyrir nokkur fín færi og þurfti að sætta sig við 2-3 tap.

Stigin þrjú fóru með Forest upp í fimmta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester City sem gerði jafntefli við Crystal Palace í dag.

Manchester United er hins vegar í þrettánda sæti deildarinnar, með nítján stig eftir fimmtán umferðir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira