Sport

Í árs bann fyrir ó­hóf­leg svipu­högg

Sindri Sverrisson skrifar
Charlotte Dujardin má ekki keppa aftur fyrr en í júlí á næsta ári.
Charlotte Dujardin má ekki keppa aftur fyrr en í júlí á næsta ári. Getty/Bradley Collyer

Þrefaldi ólympíumeistarinn Charlotte Dujardin hefur verið dæmd í árs bann og sektuð um eina og hálfa milljón króna, fyrir að slá hest með svipu, með „óhóflegum“ hætti.

Rétt áður en Ólympíuleikarnir hófust í París í sumar birtist myndband frá æfingu þar sem Dujardin sást nota langa svipu til að slá hest.

Þessi 39 ára, breska hestakona dró sig úr keppni á Ólympíuleikunum og var sett í tímabundið bann 23. júlí, eftir að myndbandið birtist.

Alþjóða hestaíþróttasambandið, FEI, hefur nú dæmt hana í árs bann sem gildir frá júlí síðastliðnum, og hún mun því geta keppt að nýju í júlí næstkomandi.

„Þessi refsing sendir skýr skilaboð um það að hver sem er, burtséð frá stöðu þeirra, sem stefnir velferð hests í hættu mun þurfa að taka alvarlegum afleiðingum,“ sagði Sabrina Ibanez hjá FEI.

Breska hestaíþróttasambandið hefur tekið upp bannið og má því Dujardin hvorki keppa í alþjóðlegum mótum né heima í Bretlandi.

Dujardin hefur alls unnið til sex verðlauna á Ólympíuleikum, þar af þrenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Hún er ásamt hjólreiðakonunni Lauru Kenny sú breska kona sem unnið hefur til flestra verðlauna á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×