Lára Ómarsdóttir fjölmiðlakona sagði kostulega sögu tvítugs sonar síns í Vikulokunum á Rás 1 í dag.
„Hann fékk um daginn skilaboð á Smitten. Smitten er svona stefnumótaforrit ef þið vitið það ekki. Það kom match við einhverja ægilega huggulega stúlku, átján ára. Hann kíkir á hana og líst rosa vel á, hún er voða sæt stelpa. Þannig að hann gerir til baka, hún fer að senda á hann einhver skilaboð og fer að spjalla við hann,“ segir Lára í þættinum.
Svo segir Lára umræðuna hafa snúist að kosningunum, og daman spurt son hennar hvaða flokk hann hygðist að kjósa.
„Hann er bara eitthvað, hvað meinarðu? Og hún segir, já ég er að hafa samband fyrir þennan flokk. Og hann kemur til mín bara, mamma, hvað er í gangi! Það er einhver flokkur að hafa samband við mig á Smitten!“ segir Lára hlæjandi.
Hún lét það liggja milli hluta frá hvaða flokki daman hafði samband. En þau hafi endað á að tala saman í síma, sonurinn og daman.
„Var þessi manneskja þá sannarlega að vinna fyrir einhvern flokk, hún var ekki upp á sitt einsdæmi að ákveða að fara þessa leið?“ spyr þáttastjórnandinn.
„Hún var að vinna fyrir þennan flokk. Hann spurði hana, af hverju ertu að hafa samband við mig í gegn um Smitten, stefnumótaforrit? Og þá sagði hún, mér hefur alltaf fundist þetta svo vannýtt leið til að ná til kjósenda,“ segir Lára og skellihlær.
Þáttinn má nálgast á vef RÚV.