Fótbolti

Hundrað milljónir og leik­tíð lengri en ár í húfi hjá Víkingum

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar hafa fagnað tveimur fræknum sigrum í Sambandsdeildinni, þeim fyrstu í sögu íslenskra liða, gegn Cerlce Brugge frá Belgíu og Borac frá Bosníu.
Víkingar hafa fagnað tveimur fræknum sigrum í Sambandsdeildinni, þeim fyrstu í sögu íslenskra liða, gegn Cerlce Brugge frá Belgíu og Borac frá Bosníu. vísir/Anton

Hundrað milljón krónur, tækifæri á umspili og þar með leiktíð fram í febrúar, og möguleiki á að tryggja Íslandi sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar. Það er afskaplega mikið í húfi hjá Víkingum í Armeníu í dag, í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta.

Víkingar reyna í dag að verða fyrstir til að vinna FC Noah á heimavelli liðsins í Armeníu, en þar hefur Noah unnið alla sex heimaleiki sína í Evrópukeppni. Leikur liðanna hefst klukkan 17:45 og er sýndur á Vodafone Sport.

Víkingur hefur þegar unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í hinni nýju deildakeppni Sambandsdeildarinnar, og er í 14. sæti af 36 liðum deildarinnar.

Samkvæmt tölfræðisíðunni Football Rankings sýna hermanir að sjö stig ættu nær örugglega að duga til þess að komast á næsta stig keppninnar, og samkvæmt því ættu Víkingar því bara að þurfa eitt stig í dag, eða gegn Djurgården eða LASK í lokaleikjunum í desember, til þess að lengja sína leiktíð verulega.

Staðan í Sambandsdeild Evrópu eftir þrjár umferðir af sex. Efstu átta liðin komast beint í 16-liða úrslit, en liðin í 9.-24. sæti fara í umspil um að komast í 16-liða úrslitin.Wikipedia

Efstu átta lið deildarinnar komast beint í 16-liða úrslitin, 6. og 13. mars, en liðin í 9.-24. sæti komast í umspil sem fram fer 13. og 20. febrúar.

Ef að Víkingar komast í þetta umspil, og hvað þá 16-liða úrslitin, verður keppnistímabil þeirra því orðið talsvert lengra en eitt ár, og farið að blandast við næstu leiktíð, en þeir hófu þetta keppnistímabil á Reykjavíkurmótinu með leik við Fylki 6. janúar.

Gætu komist upp í 830 milljónir í dag

Hver sigur í keppninni færir Víkingum 400.000 evrur, eða um 58 milljónir króna samkvæmt gengi dagsins í dag. Sigur í dag myndi hins vegar gera enn meira og tryggja liðinu sæti í umspilinu, eða að lágmarki 24. sæti í deildinni.

Þar með myndu Víkingar hafa tryggt sér samtals 5.741.504 evrur í verðlaunafé með árangri sínum í ár, enn með tvo leiki til stefnu, eða um 830 milljónir króna. Hafa má í huga að á móti þeirri upphæð kemur þó hellings kostnaður, til að mynda við ferðalagið langa til Armeníu. Ferðalag sem nokkrir afar dyggir stuðningsmenn Víkings settu ekki fyrir sig.

Gætu komið næstu bikarmeisturum í Evrópudeild

Síðast en ekki síst yrði sigur í dag svo afar mikilvægur fyrir íslenskan fótbolta því Ísland er í baráttu við Armeníu á stigalista UEFA. Sá listi ræður Evrópusætum og til að mynda á Ísland núna rétt á einu sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar, og þremur sætum í undankeppni Sambandsdeildarinnar sem er C-deild Evrópukeppnanna.

Víkingar eru búnir að koma Íslandi upp í 33. sæti listans, neðsta sætið sem myndi gefa bikarmeisturum næsta árs á Íslandi sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar í stað Sambandsdeildarinnar, tímabilið 2025-26. En Armenar eru rétt fyrir neðan Íslendinga og því skiptir leikurinn í dag miklu máli í þessari baráttu.

Sæti í undankeppni Evrópudeildar er mun fýsilegra en sæti í Sambandsdeild, til að mynda vegna þess að lið sem falla út í undankeppni Evrópudeildarinnar færast í undankeppni Sambandsdeildarinnar og fá því að lágmarki tvö Evrópueinvígi í stað eins.

En jafnvel þó að leikurinn í dag myndi tapast þá hafa Víkingar enn tvo leiki til stefnu til að vinna að ofangreindum áföngum. Þeir taka á móti Djurgården frá Svíþjóð 12. desember og klára svo jólagjafainnkaupin í Austurríki þar sem þeir mæta LASK 19. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×