Lífið

Leggja undir sig spinnings­hjólin og upp­hífingar­stangirnar á tón­leikunum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá tónleikum hópsins í Tjarnarbíó.
Frá tónleikum hópsins í Tjarnarbíó. Aðsend

Benni Hemm Hemm & Kórinn standa fyrir tónleikum í líkamsræktarstöðinni Grandi 101 á morgun, föstudaginn 29. nóvember. Hópurinn leggur undir sig spinninghjólin, upphífingarstangirnar og teygjusvæðið samhliða tónlistarflutningi. 

Í tilkynningu um tónleikana kemur fram að hópurinn sé þekktur fyrir einstaka sviðsframkomu og að hann dansi á mörkum þess að vera band eða kór sem standi fyrir tónleikum eða sviðsverkum. Þar segir einnig að tónleikarnir á morgun verði þar engin undantekning og sviðsetning verði að vanda óvænt.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu að kórinn muni á tónleikunum einnig koma fram með hljómsveit sem skipuð er kórmeðlimum, sem leika á bassa, fiðlu, harmonikku og þverflautu.

„Við þurfum frí frá jólatónleikum og kosningafréttum og vondu veðri og hvað er þá betra en að fara á tónleika með kvennakór í líkamsræktarsal? Við erum að fara að spila lög úr sýningunni okkar Ljósið & ruslið en líka helling af nýjum lögum sem er mjög spennandi að setja á svið útá Granda. Kórinn er búinn að æfa stíft og hefur aldrei verið betri. Ég held að þetta verði fullkomin blanda af því að vera fallegt, kósí, stuð og gaman,“ segir Benedikt Hermann Hermannsson, betur þekktur sem Benni Hemm Hemm.

Frá fyrri tónleikum hópsins.Aðsend

Kórinn var stofnaður í ársbyrjun árið 2023 og er samstarfsverk Benna Hemm Hemm, Ásrúnar Magnúsdóttur dansara og kórmeðlima. Benni útsetur verk fyrir Kórinn sem samanstendur af um þrjátíu konum úr öllum áttum. Ásrún semur allar sviðshreyfingar. Sumir kórmeðlimir eru tónlistarkonur eða hafa reynslu af því að syngja í kór. Aðrar eru dansarar og danshöfundar eða sviðslistakonur og enn aðrar eru bara forvitnar og framsæknar konur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.