Flughálka er á Suðurstrandarvegi frá Þorlákshöfn að Selvogi og á Kjósarskarðsvegi. Hálka er á flestum öðrum leiðum þó síst á Suðurnesjum. Mikil hálka er annars víða um land og á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar segir að á Vesturlandi sé hálka eða hálkublettir nokkuð víða.
Á Vestfjörðum er krapi á Steingrímsfjarðarheiði en hálka eða hálkublettir annars staðar á svæðinu.
Á Norðurlandi er einnig hálka eða hálkublettir nú í morgunsárið og á Norðausturlandi er þæfingsfærð í kringum Mývatn, á Mývatnsöræfum og á Hárekstaðaleið syðri. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum. Ófært er um Dettifossveg.
Á Austurlandi er snjóþekja, hálka eða hálkublettir víðast hvar um svæðið og á Suðausturlandi er flughálka á Mýrdalssandi en hálka annarsstaðar.
Á Suðurlandi er svo mjög víða flughált á vegum út frá Þjóðveginum og hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum.