Körfubolti

Um­boðs­maðurinn sér­staki sem kom með fyrstu Kananna til landsins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bob Starr umboðsmaður er mikill karakter.
Bob Starr umboðsmaður er mikill karakter.

Kaninn var frumsýndur á Stöð 2 og Stöð 2 Sport um síðustu helgi og í fyrsta þætti var fjallað um komu fyrstu bandarísku leikmannanna í íslenskan körfubolta um miðbik áttunda áratugarins.

Meðal viðmælenda í þættinum var hinn magnaði Robert „Bob“ Starr sem átti einna stærstan þátt í komu þeirra fyrstu. Bob samdi um komu fyrsta leikmannsins, Jimmy Rogers, árið 1975 sem gekk til liðs við Ármann og átti stóran þátt í að tryggja félaginu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil vorið eftir.

Bob hélt síðar hingað til lands og varð ansi áberandi persóna á Íslandi og oft umfjöllunarefni á síðum blaðanna. Íklæddur rykfrakka með kúluhatt og sólgleraugu hreiðraði hann um sig á Hótel Esju þar sem hann hafði aðgang að Telex tæki og gekk frá samningum við fjölmarga leikmenn fyrir íslensk lið, m.a. stórstjörnuna Stu Johnson.

Klippa: Bob Starr kom með fyrstu Kanana til landsins

Sá átti mjög farsælan feril að baki í ABA-deildinni bandarísku, hinni stóru atvinnumannadeild Bandaríkjanna á þeim árum. Sagan af þeim vistaskiptum er rifjuð upp í þættinum.

Síðar tók Bob við þjálfun Ármenninga sem þá höfðu fallið niður um deild og samdi þá við Bandaríkjamanninn Danny Shouse um að leika með liðinu. Liðið var afar ungt en planið var einfalt. Danny ætti að skila 60 stigum hið minnsta að meðaltali í leik og þá myndu þeir fljúga upp.

Það gekk eftir og raunar skoraði Shouse 100 stig í einum leik gegn Skallagrím sem slegið var upp sem jöfnun á heimsmeti Wilt Chamberlain á þeim tíma. Shouse gekk svo til liðs við Njarðvík þar sem hann leiddi liðið til tveggja Íslandsmeistaratitla.

Kaninn er á dagskrá Stöðvar 2 og Stöðvar 2 Sports næstu sunnudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×