Erlent

Gefa út hand­töku­skipun á hendur Netanjahú

Samúel Karl Ólason skrifar
Benjamín Netanjahú á þingi í Ísrael á mánudaginn.
Benjamín Netanjahú á þingi í Ísrael á mánudaginn. AP/Ohad Zwigenberg

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hefur gefið út handtökuskipanir á hendur Benjamíns Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, Yoav Gallant, fyrrverandi varnarmálaráðherra Ísrael, og gegn Mohammed Diab Ibrahim Al-Masri og tveimur öðrum leiðtogum Hamas-samtakanna sem er dánir. 

Allir eru sakaðir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Allir dómararnir þrír voru sammála um handtökuskipanirnar.

Með því eru Netanjahú og hinir eftirlýstir víðsvegar um heiminn og mun þetta að líkindum einangra Ísraela enn frekar á alþjóðasviðinu.

Ísrael er ekki eitt af þeim 123 ríkjum sem hafa skrifað undir Rómarsamþykktina um stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Ferðist Netanjahú eða aðrir sem dómstóllinn hefur lýst eftir til þessara ríkja, eiga þeir að vera handteknir.

Bandaríkin, helstu bakhjarlar Ísrael, hafa ekki heldur skrifað undir sáttmálann. Þá hafa margir af leiðtogum Hamas verið felldir í árásum Ísraela á undanförnu ári.

Farið var fram á handtökuskipanirnar fyrr á þessu ári og fordæmdi Netanjahú þá kröfu á sínum tíma. Það gerði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna einnig, auk leiðtoga Hamas-samtakanna.

Í ákvörðun þriggja dómara ICC segir að talinn sé grunnur fyrir því að bæði Netanjahú og Gallant, hafi vísvitandi brotið á rétti íbúa Gasastrandarinnar frá því árásir Ísraela þar hófust í kjölfar árása Hamas-liða á Ísrael þann 7. október.

Tveir af þremur verið felldir

Dómarar ICC hafa einnig gefið út handtökuskipun á hendur Mohammed Diab Ibrahim Al-Masri, sem gengur einnig undir nafninu „Deif“ og er hann sakaður um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Ísrael og Palestínu. Deif er einn af hernaðarleiðtogum Hamas og leiðir al-Qassam sveitirnar svokölluðu.

Handtökuskipanir voru einnig samþykktar á hendur Ismail Haniyeh og Yahya Sinwar, fyrrverandi leiðtogum Hamas-samtakanna, en þeir hafa báðir verið felldir af Ísraelum.

Deif er sakaður um að bera ábyrgð á morðum, pyntingu, nauðgunum, gíslatökum og ýmsum öðrum glæpum.

Fréttin verður uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×