Enski boltinn

Neville gagn­rýnir Bandaríkjaför Rashford og Casemiro

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford skellti sér á leik New York Knicks og Brooklyn Nets í Madison Square Garden í landsleikjahléinu.
Marcus Rashford skellti sér á leik New York Knicks og Brooklyn Nets í Madison Square Garden í landsleikjahléinu. getty/Luke Hales

Gary Neville hefur gagnrýnt Marcus Rashford og Casemiro, leikmenn Manchester United, fyrir að fara til Bandaríkjanna í landsleikjahléinu.

Rashford og Casemiro voru ekki valdir í enska og brasilíska landsliðið og nýttu tækifærið og fóru til Bandaríkjanna í landsleikjahléinu. Rashford skellti sér meðal annars á leik í NBA á meðan Casemiro fór með fjölskylduna í Disney World í Orlando.

Rúben Amorim er nýtekinn til starfa sem knattspyrnustjóri United og Neville hefði viljað sjá Rashford og Casemiro halda kyrru fyrir í Manchester í landsleikjahléinu.

„Fagmennskan, að hugsa vel um líkamann og sjá til þess að þú sért sem best undirbúinn fyrir næstu æfingu er mikilvægt fyrir allar ákvarðanir sem þú tekur á meðan tímabilinu stendur,“ sagði Neville í hlaðvarpinu Stick to Football.

„Hann [Rashford] þurfti að komast í burtu og hvíla sig með vinum sínum en þú horfir þá á áfangastaðinn, hversu lengi þarftu að fljúga, hver er tímamismunurinn, verðurðu flugþreyttur og stífur eftir tólf klukkutíma flug? Þetta snýr meira að Casemiro en Rashford. Ef hann væri í burtu með brasilíska landsliðinu í tíu daga myndum við segja að hann ætti í vandræðum um helgina. Þeir völdu þetta landsleikjahlé. Ef þú talar um litlu atriðin að vera eins faglegur og þú getur og eins undirbúinn fyrir æfingu á mánudaginn er þetta ekki besti staðurinn til að fara til.“

Ian Wright var ósammála gagnrýni Nevilles og sá ekkert athugavert við að Rashford og Casemiro hefðu farið til Bandaríkjanna. Þeir væru í frí og frjálst að gera það sem þeir vildu.

United sækir nýliða Ipswich Town heim á sunnudaginn í fyrsta leiknum undir stjórn Amorims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×