Sport

Tyson eftir tapið gegn Paul: „Ég dó næstum því í júní“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frá bardaga þeirra Tyson og Paul.
Frá bardaga þeirra Tyson og Paul. Vísir/Getty

Mike Tyson mátti sætta sig við tap í bardaga gegn YouTube-stjörnunni Jake Paul á aðfaranótt laugardags. Tyson segir í færslu á X að hann hafi verið nálægt því að deyja í júní.

Bardaga Tyson og Paul var beðið með nokkurri eftirvæntingu en YouTube-stjarnan Paul hefur einbeitt sér að hnefaleikum síðustu misserin og skoraði á Tyson í bardaga en Tyson er orðinn 58 ára gamall og keppti síðast í keppnisbardaga árið 2005.

Það var Paul sem hafði síðan betur í bardaganum eftir að dómarar dæmdu honum sigur á stigum. Ljóst þótti að Tyson þyrfti að ná rothöggi á Paul snemma til að fagna sigri og mátti sjá þreytumerki á Tyson eftir því sem leið.

Tyson var raunar hægur frá upphafi og eftir að hafa verið fagnað sem þjóðhetju þegar hann gekk í hringinn heyrðist baulað að honum undir lok bardagans.

„Ég þurfti að berjast fyrir því að ná heilsu“

Tyson var búinn að vera kokhrautur í undirbúningi fyrir bardagann en hann átti upphaflega að fara fram í júní en var þá frestað vegna veikinda Tyson sem glímdi við magasár.

Eftir bardagann hyllti Paul Tyson og sagði það hafa verið heiður að mæta honum. Tyson tjáði sig síðan á samfélagsmiðlinum X í gærkvöldi. Hann segir að þetta hafi verið ein af þeim stundum þar sem maður vinnur þrátt fyrir að tapa.

„Ég er þakklátur fyrir gærkvöldið. Engin eftirsjá að hafa farið inn í hringinn í síðasta skiptið,“ skrifar Tyson og kemur síðan inn á veikindin sem urðu til þess að fresta þurfti bardaganum í sumar.

„Ég dó næstum því í júní. Ég fékk 8 blóðgjafir, missti helminginn af blóðinu og 11 kíló á sjúkrahúsi. Ég þurfti að berjast fyrir því að ná heilsu til að geta barist.“

Tyson segir að þetta hafi verið augnablik sem enginn getur ætlast til að upplifa.

„Að börnin mín hafi séð mig standa andspænis og klára átta lotur gegn hæfileikaríkum hnefaleikmanni sem er helmingi yngri en ég. Fyrir framan troðfullan leikvang Dallas Cowboys. Það er reynsla sem enginn hefur rétt á að biðja um.“

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×