Enski boltinn

Coote skipu­lagði dóppartí rétt fyrir leik sem hann dæmdi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Coote dæmir varla fleiri leiki í hæsta getustigi úr þessu.
David Coote dæmir varla fleiri leiki í hæsta getustigi úr þessu. getty/Catherine Ivill

Vandræði enska dómarans Davids Coote virðast engan endi ætla að taka. Nú er komið í ljós að hann reyndi að skipuleggja eiturlyfjapartí meðan hann var fjórði dómari á leik Tottenham og Manchester City í enska deildabikarnum í síðasta mánuði.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að Coote hafi verið á fullu við að skipuleggja partíið fyrir leikinn og meira að segja í hálfleik.

Ensku dómarasamtökin, PGMOL, settu Coote í ótímabundið bann eftir að myndband þar sem hann fór ófögrum orðum um Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóra Liverpool, fór í dreifingu.

Í kjölfarið birti The Sun myndband þar sem Coote virðist sjúga hvítt duft upp í nefið með peningaseðli. Myndbandið var frá því í sumar, þegar Coote var dómari á Evrópumótinu í Þýskalandi. Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur nú sett Coote til hliðar.

Coote ku hafa bókað hótelherbergi fyrir partíið rúmum hálftíma áður en leikur Spurs og City hófst. Hann sendi svo staðfestingu á bókuninni rétt fyrir upphafsflautið. Heimildarmaður The Sun sagðist svo einnig hafa fengið skilaboð frá Coote í hálfleik. Hann mætti þó ekki í partíið, Coote til mikillar gremju. Dómarinn fór meðal annars fram á að hann endurgreiddi honum bókunarkostnaðinn.

Tottenham vann leikinn þar sem Coote var fjórði dómari, 2-1. Hann fór fram 30. október.


Tengdar fréttir

Murphy um Coote: „Hann er búinn“

Fyrrum knattspyrnumaðurinn og núverandi knattspyrnusérfræðingurinn Danny Murphy telur að dómarinn David Coote munu aldrei aftur dæma í ensku úrvalsdeildinni.

Stuðningsmenn Liverpool rifja upp gamlar syndir Coote

Eftir að myndband af dómaranum David Coote þar sem hann kallar Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóra liðsins tussu, fór í dreifingu hafa stuðningsmenn Rauða hersins rifjað upp gömul atvik tengd dómaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×