Körfubolti

„Maður er að kaupa notaða bíla og það eru bílasalar að bjóða manni bíla“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Pétur Ingvarsson er að fá bandarískan leikmann sem spilaði í NBA.
Pétur Ingvarsson er að fá bandarískan leikmann sem spilaði í NBA. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík tók á móti Haukum í Blue höllinni í kvöld þegar sjöunda umferð Bónus deildar karla hóf göngu sína. Það voru heimamenn í Keflavík sem höfðu betur með miklum yfirburðum 117-85.

„Það er gaman að vinna. Allt annað að vinna en að tapa,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

Það var mjög jafnt með liðunum í fyrsta leikhluta og í upphafi annars leikhluta en eftir það tók Keflavík öll völd.

„Planið er að við erum að reyna spila hratt og þreyta liðin og í lok annars leikhluta þá fara menn kannski að vera þreyttir og þá reynum við að nýta tækifærið og keyra yfir menn og það tókst ágætlega í dag.“

Haukar voru fyrir leikinn í dag enn í leit af sínum fyrsta sigri en það breytti þó ekki hvernig Keflvíkingar nálguðust leikinn.

„Við vorum náttúrulega bara fyrir þennan leik búnir að vinna þremur leikjum meira en þeir. Það var ekkert rosalega á milli okkar og þeir búnir að vera í tveim hörku leikjum núna fyrir þessa leiki þannig við komum bara vel fókuseraðir og menn lögðu sig fram hérna í fjörutíu mínútur og niðurstaðan öruggur sigur.“

Keflavík hafa byrjað mótið á nokkrum útileikjum en fá núna nokkra heimaleiki á næstunni þar sem þeim líður mun betur.

„Það munar öllu. Við æfum hér, skjótum hér og spilum hérna alla daga vikunnar á æfingum þannig hér líður okkur vel.“

Keflavík tilkynntu í gær nýjan leikmann sem mun koma til móts við liðið í landsleikjahléinu en hann á mjög áhugaverðan feril meðal annars með Phoenix Suns í NBA en hvernig bar þetta að?

„Í sjálfu sér er maður bara að kaupa notaða bíla og það eru bílasalar að bjóða manni bíla. Þessi kom bara upp og við stukkum á það og tékkuðum á honum og hann hafði áhuga. Það er bara verið að vinna í pappírsmálum og að koma honum hingað og það tekur smá tíma.“

Aðspurður hvort að hann yrði með liðinu í næsta leik vonast Pétur til þess.

„Ef hann verður heill heilsu og kominn þá er það ekki vandamálið. Það er kannski meira útlendingaeftirlitið og svoleiðis hlutir sem gætu stoppað þetta. Við erum kannski byrjaðir í þeirri vinnu en að getur tekið lúmskt langan tíma að fá leyfi fyrir leikmenn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×