Innlent

Sam­mála um níkótínpúðana en ekki áfengissöluna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Áherslur flokkanna eru þær sömu þegar kemur að nikótínpúðum en ólíkar hvað varðar sölu á áfengi.
Áherslur flokkanna eru þær sömu þegar kemur að nikótínpúðum en ólíkar hvað varðar sölu á áfengi.

Allir þeir flokkar sem svöruðu spurningum fornvarnarsamtaka um nikótínpúða og áfengissölu sögðust vilja stemma stigu við notkun barna og unglinga á nikótínpúðum.

Aðeins tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn, sögðust hins vegar vilja leggja niður ÁTVR og heimila sölu áfengis í verslunum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fræðslu- og forvarna, Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum, IOGT og Samstarfi félagasamtaka í forvörnum.

Samkvæmt tilkynningunni bárust svör frá Framsóknarflokknum, Samfylkingunni, Sjálfstæðisflokknum, Sósíalistaflokknum, Vinstri grænum og Viðreisn en Lýðræðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Píratar svöruðu ekki.

„Vegna sorglegrar þróunar í nikótínpúða- og áfengismálum, sem eru bæði mikilvæg lýðheilsu- og samfélagsmál, telja forvarnarsamtök að almenningur eigi rétt á að vita afstöðu flokkanna til þessara mála nú þegar styttast fer í myndun nýrrar ríkisstjórnar,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Forvarnarsamtök telja að svör flokkanna sýni samstöðu þeirra um að verja börn og ungmenni gegn nikótíni, en ósamstöðu um áfengissöluna. Mið- og vinstriflokkar vilja ekki leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum vegna lýðheilsu- og samfélagsjónarmiða. Hægri flokkar vilja hins vegar leggja niður ÁTVR og selja áfengi í almennum verslunum til að auka frelsi í verslun.

Samstaðan um vörn gegn nikótíni gleður, en ósamstaðan um áfengissöluna er forvarnarsamtökum mikið áhyggjuefni.“

Spurt var:

  • Telur flokkur þinn rétt að stemma stigu við aukinni notkun nikótínpúða meðal barna og ungmenna? Ef já, til hvaða aðgerða viltu að stjórnvöld grípi?
  • Vill flokkur þinn að ÁTVR verði lagt niður og áfengið selt í almennum verslunum?

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×