Kuldi gerði bændum á norðanverðu landinu lífið leitt í vor og sumar. Í byrjun júní gerði vetrartíð með snjókomu og gulum og appelsínugulum veðurviðvörunum. Tjón varð á búfénaði í kuldakastinu, sáning spilltist vegna mikillar bleytu og foks og kaltjón varð á túnum. Þá er óvenjufáar sólskilsstundir sagðar hafa leitt til hærri raforkukostnaðar hjá garðyrkjubændum.
Tjón var skráð á 375 búum vegna búfénaðs, uppskeru, afurðataps og kostnaðar við endursáningu. Þá hafa Bjargráðasjóði borist 123 umsóknir um stuðning vegna kaltjóns allt frá Strandabyggð til Múlaþings.
Ríkisstjórnin samþykkti að skipa starfshóp til að fara yfir tjón bænda vegna kuldatíðarinnar á fundi sínum á föstudag. Hann á að gera tillögur um útfærslur og umfangs stuðningsaðgerða, að því er segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu. Hópurinn á að skila matvælaráðherra tillögum í næsta mánuði.
Gert er ráð fyrir að um 300 milljónum króna verði varið til stuðnings til bænda vegna kaltjónsins. Bjargráðasjóður afgreiðir umsóknir um þann stuðning. Sjóðurinn greiddi út 442 milljónir króna vegna kal- og girðingartjóns sem varð veturinn 2019 til 2020.
Þá er áætlað að fjörutíu milljónir króna vanti upp á að fjárheimildir til niðurgreiðslu flutnings og dreifingar raforku til garðyrkjubænda dugi til að ná 95 prósent niðurgreiðsluhlutfalli sem er gert ráð fyrir í samningi ríkisins og Bændasamtakanna.
Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum forsætis-, matvæla- og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.