Fótbolti

Ís­land náði jafn­tefli gegn Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Byrjunarlið Íslands í kvöld.
Byrjunarlið Íslands í kvöld. Knattspyrnusamband Íslands

Íslenska U-17 ára lið drengja í knattspyrnu gerði í kvöld 2-2 jafntefli við Spán í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer næsta sumar. Báðar þjóðirnar höfðu þegar tryggt sér sæti í næsta stigi undankeppninnar fyrir leik kvöldsins en fyrsta sætið var engu að síður undir.

Riðillinn var leikinn á Íslandi og fór fram á heimavelli Þróttar Reykjavíkur í Laugardalnum. Íslensku strákarnir höfðu unnið Norður-Makedóníu og Eistland nokkuð örugglega áður en þeir mættu Spánverjum í kvöld.

Það má færa rök fyrir því að Spánverjarnir hafi verið öflugri í kvöld en íslenska liðið sýndi dugnað, elju og baráttu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Var það sú vinnusemi skilaði liðinu marki á 33. mínútu þegar Alexander Máni Guðjónsson, leikmaður Stjörnunnar kom Íslandi 1-0 yfir.

Þeir spænsku jöfnuðu metin hins vegar ekki löngu síðar og staðan 1-1 í hálfleik. Spánverjar komust svo yfir eftir rúmlega klukkustund en íslenska liðið neitaði að gefast upp og tókst á endanum að jafna metin.

Gunnar Orri Olsen, leikmaður FC Kaupmannahafnar, kom inn af bekknum og var það hann sem jafnaði metin á 84. mínútu leiksins. Staðan orðin 2-2 og reyndust það lokatölur leiksins. Spánn vinnur því riðilinn þar sem það er með betri markatölu en íslenska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×