Forsætisráðherrann birti myndir úr sundinu á samfélagsmiðlinum Instagram. Støre er líklega stærsti aðdáandi íslenskrar sundmenningar utan landsteinanna en hann fer í sund í hvert einasta skiptið sem hann sækir klakann heim. Hann er staddur hér á landi til að sækja Norðurlandaráðsþing sem haldið er í Reykjavík í þetta skiptið.
Það hefur raunar vakið athygli í Noregi hvað Støre elskar íslenskar sundlaugar og var aðdáunin umfjöllunarefni norska ríkisútvarpsins í maí í fyrra þegar Støre sótti leiðtogafund Evrópuráðsins í Reykjavík. Þá tók fréttamaður NRK viðtal við Støre þar sem hann var staddur í heitasta potti Sundhallarinnar um íslensku sundmenninguna.
„Ég kem alltaf hingað þegar ég er á Íslandi, þetta er íslensk hefð að skella sér í þessi böð,“ sagði ráðherrann við NRK í fyrra. Hann sagði við tækifærið að Ísland ætti sérstakan stað í hjörtum Norðmanna.
Haft var eftir Støre að það séu ákveðnar samskiptareglur og hefðir þegar kemur að því að slaka á í heita pottinum á Íslandi. Það mikilvægasta sé að slaka á og spjalla, ef þess sé kostur.


