Erlent

Fethullah Gülen er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Trúarleiðtoginn Fethullah Gülen hafði búið í Bandaríkjunum frá árinu 1999.
Trúarleiðtoginn Fethullah Gülen hafði búið í Bandaríkjunum frá árinu 1999. Getty

Tyrkneski prédikarinn Fethullah Gülen, sem bjó síðustu ár í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, er látinn, 83 ára að aldri.

Reuters greinir frá andlátinu í dag. Gülen var mikið í fréttum árið 2016 þegar honum var af Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta kennt um að hafa skipulagt valdaránstilraun í landinu. Valdaránstilraunin mistókst, en Gülen hafnaði því alfarið að hafa staðið að henni.

Trúarleiðtoginn hafði búið í Bandaríkjunum frá árinu 1999 og var þekktur fyrir að hafa hvatt stuðningsmenn sína til að koma sér fyrir í „slagæðum kerfisins“ í þeim tilgangi að taka yfir tyrkneskt stjórnkerfi innanfrá.

Gülen og Erdogan voru á sínum tíma samstarfsmenn en það slettist upp á vinskapinn árið 2013 þegar Gülen og stuðningsmenn hans sökuðu Erdogan um spillingu. Gülen var árið 2013 á lista tímaritsins Time yfir áhrifamestu menn heimsins.

Hreyfing Gülen kallast Hizmet sem þýðir þjónusta. Ekki er um opinbera hreyfingu að ræða heldur um að ræða net fólks sem var með um þrjár milljónir liðsmanna í Tyrklandi þegar mest lét. Andstæðingar hreyfingar Gülen hafa sakað liðsmenn hennar um að tengjast hryðjuverkahreyfingu FETÖ sem staðið hefur fyrir röð hryðjuverkaárása í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×