Körfubolti

Skiptar skoðanir á nýju merki Njarð­víkur

Siggeir Ævarsson skrifar
Ný merki Njarðvíkur
Ný merki Njarðvíkur umfn.is

Njarðvíkingar eru ekki bara komnir með nýtt og glæsilegt íþróttahús heldur hefur merki félagsins einnig fengið andlitslyftingu. Njarðvíkingar eru þó ekki á eitt sáttir með breytingarnar.

Í frétt Njarðvíkur um málið segir meðal annars að „markmiðið með endurmörkuninni var að móta ásýnd félagsins með því að byggja á sögu þess.“ 

Þar kemur einnig eftirfarandi fram: „Í tilefni af 80 ára afmæli félagsins var hannað sérstakt merki sem vísar til eldra merkis UMFN, sem var einfaldara en núverandi útgáfa. Þetta merki var oftast notað í einlita útgáfu, en einnig í blárri og rauðri útfærslu.“

Hin nýja ásýnd var formlega tilkynnt á Facebook síðu körfuknattleiksdeildarinnar á dögunum og má með sanni segja að ekki séu allir á eitt sáttir með nýja merkið. 

Þetta er hræðilegt með fullri virðingu fyrir þeim sem hannaði þetta !

Að aðilarnir sem komu að þessari breytingu skuli ekki skammast sín ! Fyrir utan það hvað bæði þessi merki eru ljót þá væri gaman að fá að heyra nkl hvernig staðið var að þessari breytingu.

Þetta er allt saman ólöglegt og unnið að tjaldabaki

Þá vísa nokkrir netverjar í lög félagsins og vilja meina að nýtt merki fari gegn lögum þess. Þessi misskilningur hefur þó verið leiðréttur í kommentakerfinu af Ungmennafélaginu sjálfu.

„Að gefnu tilefni vill aðalstjórn UMFN árétta að um er að ræða sérstaka afmælisútgáfu af merki félagsins í kynningunni á nýrri ásýnd en ekki merki sem hefur komið í stað þess sem er í samþykktum félagsins.“

Ósáttir Njarðvíkingar geta sem sagt varpað öndinni léttar. Lög félagsins hafa ekki verið brotin og nýja merkið er afmælisútgáfa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×