Enski boltinn

Jason lagði upp í sigri gegn liði 92-ár­gangsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jason Daði í leik með Grimsby.
Jason Daði í leik með Grimsby. Vísir/Getty

Jason Daði Svanþórsson var í byrjunarliði Grimsby Town sem vann góðan sigur í League Two-deildinni á Englandi í dag. Þetta var fjórði sigur Grimsby í síðustu fimm leikjum.

Jason Daði gekk til liðs við Grimsby frá Breiðabliki í sumar og hefur byrjað tímabilið ágætlega á Englandi. Hann er búinn að skora eitt mark og leggja upp eitt í fyrstu níu leikjum tímabilsins og bætti í sarpinn í dag.

Jason Daði var í byrjunarliðinu gegn Salford City en eigendur Salford eru fyrrum leikmenn Manchester United og hluti af hinum margfræga 92-árgangi. Bræðurnir Phil og Gary Neville, David Beckham, Nicky Butt, Ryan Giggs og Paul Scholes eiga allir hlut í félaginu sem hefur verið að færa sig upp í deildakeppninni á Englandi síðustu árin.

Luca Barrington kom Grimsby yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en heimalið Salford jafnaði metin stundarfjórðungi síðar. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði kom Barrington liði Grimsby aftur í forystu og í þetta sinn eftir sendingu frá Jasoni Daði.

Ekki bættust við mörk í síðari hálfleiknum og Grimsby fagnaði 2-1 sigri. Liðið er nú með 18 stig í 8. sæti deildarinnar og aðeins þremur stigum á eftir liði Port Vale sem er á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×