Varnarleikur Juventus hefur verið ógnarsterkur á tímabilinu og það stefndi allt í að Juve héldi hreinu sjöunda leikinn í röð en undir lokin fékk Cagliari vítaspyrnu.
Razvan Marin fór á punktinn, skoraði framhjá Michele Di Gregorio og tryggði gestunum frá Sardiníu jafntefli. Skömmu eftir markið fékk Francesco Conceicao, leikmaður heimamanna, sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Juventus náði forystunni á 15. mínútu þegar Dusan Vlahovic skoraði úr víti. Hann fagnaði með því að halda treyju með nafni Bremers á lofti en brasilíski varnarmaðurinn sleit krossband í 2-3 sigrinum á RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.
Vlahovic hefur skorað fimm af tíu mörkum Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en enginn annar leikmaður liðsins hefur skorað meira en eitt mark.
Juventus er í 3. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með þrettán stig, þremur stigum á eftir toppliði Napoli. Cagliari er í 15. sætinu með sex stig.