Thomas skoraði 31 stig þegar Grindavík bar sigurorð af nýliðum ÍR, 100-81, í Smáranum í Bónus deildinni í gær.
„Hann er rosalega snöggur. Hann er duglegur að koma sér á körfuna og frábær í að klára. Þetta fyrsta skref hjá honum er ótrúlega snöggt og svo klárar hann vel í kringum hringinn. Ég er hrifinn af öllu nema hárinu. Hann mætti mögulega gera eitthvað í því,“ sagði Ómar Örn Sævarsson í Bónus Körfuboltakvöldi í gær.
Stefán Árni Pálsson spurði Jón Halldór hvort Thomas væri betri eða verri leikmaður en Basile sem lék með Grindavík í fyrra eins og fyrr sagði.
„Betri,“ sagði Jón Halldór ákveðinn. „Þá aðallega bara líkamstjáningin, hvað hann er að gera fyrir liðsfélaga sína, hvernig hann talar við þá. Hann er lítið að pæla í því hvað áhorfendur eru að segja um hann, allavega í þessum leik. Hann einbeitti sér að körfubolta, skaut illa en er geggjaður að fara á hringinn og ég held að skotin komi til með að detta þegar líður á tímabilið.“
Thomas og félagar hans í Grindavík mæta Haukum eftir viku í næsta leik sínum í Bónus deildinni. Á síðasta tímabili fóru Grindvíkingar alla leið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn en töpuðu fyrir Valsmönnum í oddaleik.
Innslagið um Thomas má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.