Aftakaúrkomu hefur gert í Mið- og Austur-Evrópu undanfarna daga og heilu bæirnir eru á floti. Heimili, brýr og innviðir hafa eyðilagst víða, samgöngur spillst og í Póllandi brast stífla í hamförunum.
Sérstaklega hafa bæir við landamæri Pólland og Tékklands farið illa í flóðunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þrátt fyrir að byrjað væri að sjatna í ám þar í morgun hafa flóðin náð víðar og ógna stærri borgum í báðum löndum.
Sex fórust í flóðunum í Rúmeníu yfir helgina, einn í Tékklandi og þá fórst austurrískur slökkviliðsmaður þegar hann dældi vatni úr kjallara. Talið er að tveir hafi drukknað í Póllandi.
Sums staðar í Tékklandi hefur þriggja mánaða úrkoma fallið á þremur dögum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þar þurftu tólf þúsund manns að yfirgefa heimili sín vegna hamfaranna, að sögn Petrs Fiala, forsætisráðherra. BBC segir að nokkurra sem sáust hverfa í vatnselginn sé saknað í Norður- og Suður-Moravíu.
Í Austurríki er nágrenni Vínar lýst sem hamfarasvæði og ástandið þar er sagt fordæmalaust. Yfirvöld í Slóvakíu og Ungverjalandi búa sig undir möguleg flóð vegna vatnavaxta í Dóná.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hét stuðningi sambandsins við þau ríki sem hafa orðið fyrir hamförunum.