Fótbolti

„Ekki byrjunin sem maður bjóst við að þjálfarinn myndi hætta eftir einn leik“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stefán Teitur var nýbúinn kominn til liðsins þegar þjálfarinn var rekinn.
Stefán Teitur var nýbúinn kominn til liðsins þegar þjálfarinn var rekinn. vísir/sigurjón

„Þetta er spennandi tækifæri til þess að byrja vel með þremur stigum á heimavelli,“ segir Stefán Teitur Þórðarson landsliðsmaður og leikmaður enska liðsins Preston, fyrir landsleikinn gegn Svartfellingum á Laugardalsvelli annað kvöld. Leikurinn er fyrsti leikur liðsins í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar.

„Það er æðislegt að spila á þessum velli og alltaf gaman að koma heim og maður fær nokkra daga með fjölskyldunni fyrir. Svo er alltaf sérstakt að spila á Íslandi og þegar við fáum marga á völlinn, það er snilld.“

Liðið mætir síðan Tyrkjum á mánudagskvöldið.

„Það væri geggjað að stimpla okkur inn í riðilinn og reyna síðan að ná í eitthvað úti í Tyrklandi. Á morgun verðum við að hafa trú á okkur á boltanum því það eiga eftir að koma tímapunktar í leiknum þar sem við munum stjórna leiknum með boltann. Við verðum að vera harður því þeir eru það og líka mjög hraðir margir hverjir, og klárir að taka stjórnina.“

Stefán gekk til liðs við Preston í sumar. Þjálfarinn Ryan Lowe fékk leikmanninn til liðsins en hann var rekinn þegar tímabilið var nýbyrjað. Liðið er nú með 3 stig í 21. sæti ensku B-deildarinnar eftir fjórar umferðir.

„Þetta var ekki byrjunin sem maður bjóst við að þjálfarinn myndi hætta eftir einn leik, en mér finnst nýi þjálfarinn hafa komið inn með mikla jákvæðni og ég er spenntur að vinna með honum,“ segir Stefán en Paul Heckingbottom tók við liðinu á dögunum.

Klippa: „Ekki byrjunin sem maður bjóst við að þjálfarinn myndi hætta eftir einn leik“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×