Þetta kemur fram á golf.is þar sem segir að um 9% fjölgun kylfinga sé að ræða. Golfsambandið hefur spáð fyrir um 2% fjölgun og því ljóst að fjölgunin er framar björtustu vonum.
Þann 1. júlí síðastliðinn voru alls 26.349 félagsmenn skráðir í golfklúbba á Íslandi. Árið 2019 voru skráðir kylfingar um 17.900 talsins, og hefur þeim því fjölgað um 47% á aðeins fimm árum. Árið 2000 voru um 8.500 skráðir félagsmenn í golfklúbbum landsins.
Ungum kylfingum er sömuleiðis að fjölga því 11% fleiri kylfingar á aldrinum 15 ára og yngri eru nú skráðir í golfklúbba, miðað við í fyrra, 16% fleiri í hópi 16-19 ára og 20% fleiri í hópi 20-29 ára.
Kylfingum fjölgaði minnst á aldursbilinu 40-49 ára en þó um 4%, og í hópi 80 ára og eldri fjölgaði kylfingum um 14%.
Yfir sex þúsund kylfingar undir þrítugu
Fjölmennasti aldursflokkur kylfinga er á aldrinum 60-69 ára eða 5.339 manns, og næstfjölmennasti hópurinn er á aldrinum 50-59 ára eða 5.182 manns. Alls 6.061 kylfingur er yngri en 30 ára en voru 5.249 í fyrra.
Golfsamband Íslands er næstfjölmennasta íþróttasambandið innan ÍSÍ en Knattspyrnusambandið er fjölmennast með um 29.000 iðkendur.