Þetta er meðal þess sem kemur fram í víðtækri spurningakönnun, Börn og netmiðlar, sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Fjölmiðlanefnd meðal tæplega 6000 grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára í 53 grunnskólum og 25 framhaldsskólum.
Tölvuleikir eru félagsleg athöfn
Nær sex af hverjum tíu þátttakendum á unglingastigi og í framhaldsskóla líta á spilun tölvuleikja sem félagslegt atferli. Hlutfallið er lægst meðal nemenda í 4.-7 bekk þar sem um fjórir af tíu eru sammála fullyrðingunni (42%).
Mikill meirihluti 9-18 ára þátttakenda telja tölvuleiki bæta enskukunnáttu þeirra en rúmlega sex af hverjum tíu taka undir þá fullyrðingu. Þá telur tæpur helmingur nemenda á unglingastigi og í framhaldsskóla að tölvuleikir séu góð leið til að upplifa sögur.
Þriðjungur nemenda í 4.-7. bekk segist sammála því að þeir læri mikið af því að spila tölvuleiki. Hlutfallið er nokkuð hærra meðal nemenda í 8.-10. bekk (45%) og í framhaldsskóla (37%).
Minecraft vinsælastur
Þegar spurt var um hvaða tölvuleiki krakkarnir spiluðu mest reyndist Roblox vinsælastur hjá stelpum í 4.- 7. bekk en Minecraft hjá strákunum. Mincraft, Among Us, Fortnite og FIFA komu næstir hjá stelpunum en Fortnite, FIFA, Rocket League og Roblox hjá strákum.
Þegar komið er upp á unglingastig breytist staðan aðeins. Minecraft heldur fyrsta sætinu hjá strákum í 8.-10. bekk og kemst einnig á toppinn hjá stelpunum. Call of Duty, FIFA, Grand Theft Auto og Rocket Leauge fylla næstu fjögur sæti á lista strákanna en hjá stelpunum eru það: The Sims, Grand Theft Auto, Call of Duty og Among Us.
Skýrsluna má finna í heild á vef Fjölmiðlanefndar.