Það er David Ornstein, blaðamaður hjá The Athletic, sem greinir frá því að Englandsmeistararnir séu miklir aðdáendur Orra. Hann segir enn fremur að félagið íhugi að næla í leikmanninn til að vera norsku markamaskínunni Erling Braut Haaland til halds og trausts.
🚨 EXCL: Man City have considered Copenhagen’s Orri Oskarsson as Haaland back-up. #MCFC unlikely to pursue for now but firm admirers & 19yo Iceland int’l set for ~€20M + addons move. Targeted by other PL sides & likes of #FCPorto, #Sociedad @TheAthleticFC https://t.co/tBvZyI9cFM
— David Ornstein (@David_Ornstein) August 25, 2024
Orri leikur í dag með danska félaginu FC Kaupmannahöfn, en samkvæmt Ornstein er ólíklegt að City reyni að krækja í Orra í þessum félagsskiptaglugga.
Þá kemur Ornstein einnig inn á að Orri sé metinn á um 20 milljónir evra, auk árangurstengdra bónusgreiðslna, og að önnur lið í ensku úrvalsdeildinni ásamt liðum á borð við Porto og Real Sociedad séu áhugasöm um framherjann.
Orri Steinn, sem verður tvítugur í vikunni, hóf feril sinn hjá Gróttu áður en hann hélt til Kaupmannahafnar árið 2022. Hann var á láni hjá SønderjyskE árið 2023 þar sem hann skoraði fjögur mörk í tólf deildarleikjum og hefur nú skorað 13 mörk í 36 deildarleikjum fyrir FCK.
Þá á Orri einnig að baki átta leiki fyrir íslenska landsliðið þar sem hann hefur skorað tvö mörk.