Eftir 3-2 endurkomu HK á KR í Kórnum í gær munar aðeins tveimur stigum á KR (18 stig) í níunda sætinu og Fylki (16 stig) sem situr í botnsætinu. Vestri og HK eru bæði með sautján stig. Það stefnir því í æsispennandi fallbaráttu í haust.
KR fékk tvo leiki á móti liðum úr þessum hópi á síðustu viku til að losna við fallbaráttudrauginn úr Vesturbænum en uppskeran úr leikjunum við Vestra og HK var núll stig og þrjú mörk í mínus.
Það þýðir jafnframt að KR er með lélegasta árangurinn í innbyrðis leikjum þessara fjögurra neðstu liða deildarinnar.
KR-ingar hafa aðeins náð að vinna einn af sex leikjum sínum á móti Vestra (1 stig í húsi), HK (0 stig) og Fylki (4 stig). Liðið vann Fylki í fyrstu umferðinni en hafa síðan spilað fimm leiki við fyrrnefnd lið án þess að fagna sigri.
KR hefur fengið á sig fjórtán mörk í þessum sex leikjum sínum við neðstu liðin eða 2,3 mörk að meðaltali í leik.
Fylkir fékk kannski bara eitt stig á móti KR en hefur unnið hina þrjá leiki sína. Liðið á líka eftir að spila við Vestra á Ísafirði áður en deildinni verður skipt upp.
HK hefur aftur á móti náð í sex af sjö stigum sínum úr leikjunum við KR. Uppskeran úr leikjum við Vestra og Fylki er aðeins eitt stig af tólf mögulegum.
- Stig í innbyrðis leikjum fallbaráttuliðanna fjögurra:
- 1. Fylkir 10 stig (Markatala: +4, 13-9)
- 2. Vestri 8 stig (+2, 8-6)
- 3. HK 7 stig (-3, 7-10)
- 4. KR 5 stig (-3, 11-14)