Að vera til dæmis nýbúinn að kúka á klósettinu þegar næsti maður fer inn og lyktin er augljóslega þín lykt er dæmi um algengt móment. Sem flestir þekkja en fæstir ræða um.
Enda snúast vandræðanlegu mómentið okkar í vinnunni ekkert um það að tala um þau. Heldur það að takast á við þau þannig að þau séu ekki að taka frá okkur óþarfa orku né tíma.
Því allir lenda í einhverju vandræðalegu.
ALLIR!
Ef þér finnst þú hins vegar vera í vandræðum við að losna við minningu um eitthvað í huganum, móment eða atvik sem kom upp og þér fannst vandræðanlegt, eru hér nokkur ráð sem geta hjálpað.
1. Hið sígilda: Teldu upp að tíu
Gamla góða ráðið um að draga andann djúpt og telja upp að tíu virkar alltaf vel. Í þetta sinn ætlum við samt að gera það með því hugarfari að þegar við öndum frá okkur, séum við að anda því frá okkur að vera að berja okkur niður fyrir eitthvað atvik sem ekki breytist héðan af. Enda ekkert gagn í því. Það sem gerðist gerðist.
2. Annað eins hefur nú gerst
Þá er að minna okkur á að það sem gerðist hjá okkur og við erum að upplifa sem svona vandræðalegt, er örugglega ekki það versta eða hallærislegasta sem fólk hefur lent í. Satt best að segja hefur nú annað eins gerst og þaðan af verra….
Verum góð við okkur sjálf og sýnum okkur samkennd og skilning. Oft hjálpar það líka að brosa bara svolítið yfir því sem gerðist. Þó ekki nema innra með okkur.
3. Hvað viltu taka með þér?
Við viljum samt ekki grafa atvikið það djúpt í minningunni að við séum ekki að læra eitthvað af því sem gerðist. Er eitthvað sem þetta atvik kenndi þér? Hvað? Og hvernig muntu passa að lenda ekki í sambærilegu aftur?
4. Spaugilegt síðar
Þá er það eitt sem einfaldlega er staðreynd hjá okkur flestum. Og það er að seinna meir getum við oftast hlegið dátt að því sem gerðist, sérstaklega ef það var eitthvað vandræðalegt.
Auðvitað eigum við ekkert að reyna að þvinga fram hláturinn eða segja frá á meðan við erum enn að glíma við að finnast eitthvað erfitt tilfinningalega.
Að rifja samt upp eitthvað sem við áður höfum lent í en erum núna gjörn á að segja frá opinskátt og frjálslega, skellihlæjandi sjálf, getur samt hjálpað okkur að sjá að auðvitað var þetta atvik ekki verra en það að okkur mun finnast það spaugilegt síðar.