Eftir að hafa fengið tvö högg frá Khelif bað Carini um að bardaginn yrði stöðvaður. Hún heyrðist segja „þetta er ekki réttlátt“ áður en Khelif var úrskurðuð sigurvegari bardagans og í kjölfarið brotnaði sú ítalska niður í hringnum.
Þátttaka Khelifs á Ólympíuleikunum er ekki óumdeild því henni var meinuð þátttaka á heimsmeistaramótinu í fyrra þar sem hún stóðst ekki kynjapróf Alþjóðahnefaleikasambandsins (IBA) sem skipuleggur HM. IBA kemur hins vegar ekki lengur að skipulagningu hnefaleikakeppninnar á Ólympíuleikunum þar sem Khelif má keppa. Alþjóðaólympíunefndin hefur gagnrýnt útilokun Khelifs frá HM harðlega.
Í viðtali eftir bardagann sagðist Carini sagðist aldrei hafa verið slegin jafn fast og af Khelif.
„Ég er niðurbrotin,“ sagði Carini eftir bardagann en The Guardian greinir frá. „Ég steig inn í hringinn til þess að heiðra minningu föður míns. Ég hef oft fengið að heyra að ég sé stríðskona en ég ákvað að hætta keppni heilsu minnar vegna. Ég hef aldrei verið slegin svona áður. Ég steig inn í hringinn til þess að berjast. Ég gafst ekki upp en eitt höggið særði mig of mikið þannig að ég ákvað að hætta. Ég fer héðan og get borið höfuðið hátt.“
Carini sér greinilega eftir því hvernig hún lét eftir bardagann í gær, miðað við viðtal við hana í Gazzetta dello Sport. Þar sagðist hún vilja biðja Khelif afsökunar á að hafa ekki tekið í höndina á henni eftir bardagann.
„Allt þetta mál hryggir mig. Mér þykir þetta líka leitt fyrir andstæðing minn. Ef IOC segir að hún megi berjast ber ég virðingu fyrir því.“
„Þetta var ekki eitthvað sem ég ætlaði að gera. Raunar vil ég biðja hana og alla afsökunar. Ég var reið því Ólympíuleikarnir mínir höfðu fuðrað upp.“
Carini sagði að hún myndi heilsa Khelif ef þær mættust aftur í hringnum.
Í átta manna úrslitum í veltivigt á Ólympíuleikunum mætir Khelif Önnu Luca Hámori frá Ungverjalandi. Bardagi þeirra fer fram á morgun.