Fótbolti

FIFA vill nú fara sáttaleiðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, var mættur á setningarhátíð Ólympíuleikanna í París.
Gianni Infantino, forseti FIFA, var mættur á setningarhátíð Ólympíuleikanna í París. Getty/Pascal Le Segretain

Alþjóða knattspyrnusambandið virðist loksins vera að sjá ljósið og því sér mögulega fyrir endanum á þeirri pattstöðu sem er komin upp á milli FIFA og leikmannasamtakanna.

Leikmannasamtökin hótuðu FIFA málsókn vegna of mikils leikjaálags á bestu leikmenn heims en leikjunum virðist alltaf vera að fjölga á dagatalinu.

Allt fór í bál og brand eftir að FIFA skipulagði nýja heimsmeistarakeppni félagsliða sem verður jafnstór og gamla heimsmeistarakeppni landsliða.

The Associated Press hefur nú komist yfir bréf frá FIFA til World Leagues Association, heimssamtaka fótboltadeilda og FIFPRO, samtaka atvinnufótboltamanna, þar sem kemur fram vilji er til að finna lausn. ESPN segir frá.

Þar kemur fram að FIFA sé nú opið fyrir því að fara sáttaleiðina og hefja viðræður við samtökin um framtíðarfyrirkomulag á þéttsetnu fótboltadagatali.

HM landsliða verður 48 þjóða keppni sumarið 2026, var áður 32 þjóða keppni og heimsmeistarakeppni félagsliða verður nú 32 liða keppni á fjögurra ára fresti.

FIFA hefur öll völd þegar kemur að skipulagningu fótboltadagatalsins og það mat margra að sambandið sé löngu hætt að hugsa um leikmennina sjálfa heldur aðeins um eigin gróða.

Samtök deilda og atvinnufótboltamann vilja fá að hafa meiri áhrif á skipulag dagatalsins með það að markmiði að létta á álaginu á leikmenn.

Þessir fundir um framtíðina gætu verið fyrsta skrefið í þá átt en svo á eftir að koma í ljós hvort FIFA sé alvara með því að gefa eitthvað eftir í þessu máli. Það verða allit að fá eitthvað til að sættir verði og það þýðir að FIFA þarf að gefa eitthvað eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×