Lífið

Samningur við Steina snerist í hers höndum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Dwayne „The Rock“ Johnson, eða Steini, ásamt hermönnum á NASCAR-opnunarhátíð. 12 milljarða auglýsingasamningur við NASCAR skilaði svo að segja engum nýskráningum í herinn.
Dwayne „The Rock“ Johnson, eða Steini, ásamt hermönnum á NASCAR-opnunarhátíð. 12 milljarða auglýsingasamningur við NASCAR skilaði svo að segja engum nýskráningum í herinn. getty

Æ færri Bandaríkjamenn skrá sig í bandaríska herinn árlega, samkvæmt tölfræði hersins síðustu ár. Hermálayfirvöld hafa því lagt meira púður í markaðssetningu sem ber misjafnan árangur. 

Fyrr á þessu ári gerði herinn auglýsingasamning að virði 11 milljóna dala, jafnvirði um 1,5 milljarða króna, við bandaríska leikarann Dwyane „The Rock“ Johnson, eða Steina, í því skyni að fjölga skráningum. Samningurinn kvað á um að Steini skyldi birta myndir á Instagram-reikningi sínum þar sem hann auglýsir herinn. Þá fengi herinn auglýsingapláss í UFL ruðningsdeildinni, sem Johnson á stóran hlut í. 

Samkvæmt umfjöllun The Daily Beast var auglýsingaherferðin svo misheppnuð að herinn telur sig hafa orðið af 38 skráningum. 

Steini birti aðeins tvær færslur á Instagram og lítil aðsókn á UFL hjálpaði ekki til.

„Hvað Steina varðar, þá er það miður að auglýsingaherferðin hafi farið svona, á tíma sem við bjuggumst við því að hann væri til staðar til að búa til efni á samfélagsmiðla,“ sagði Dave Butler í samtali við Military.com. „Steini er enn góður félagi hersins.“

Samkvæmt gögnum Daily Beast krefst herinn þess að fá auglýsingaherferðina bætta. 

Stutt er síðan herinn eyddi 88 milljónum dala, jafnvirði rúmlega 12 milljörðum króna, í samstarfssamning með kappakstursdeildinni NASCAR. Sú herferð skilaði tuttugu nýskráningum, að því er fram kemur í umfjöllun USA Today. 

Samkvæmt Miltary.com voru 10 þúsund færri nýskráningar í herinn á síðasta ári en vonir stóðu til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.