Lífið

Nýjasta tíska ferða­langa? Að fljúga ber­bakt um há­loftin

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hér má sjá mann sem hefur farið berbakt um borð í flugvél, það er að segja hann situr bara og starir út í loftið án nokkurrar afþreyingar eða truflana.
Hér má sjá mann sem hefur farið berbakt um borð í flugvél, það er að segja hann situr bara og starir út í loftið án nokkurrar afþreyingar eða truflana. Vísir/Getty

Ferðalangar á leið í átta tíma flug með Icelandair til Seattle gátu ekki horft á sjónvarp um borð og gramdist það sumum. Þeim gafst þó gullið tækifæri til að taka þátt í nýjasta TikTok-trendinu, að fara berbakt í flug. Um er að ræða fullkomna ögunar- og núvitundaræfingu.

Pétur Vilhjálmsson, hestamaður, kvartaði í gær á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) yfir flugvél Icelandair sem flaug frá Keflavík til Seattle. 

„Icelandair, að senda flugvél sem er hvorki með sjónvarpsskjái né rafmagnsinnstungur í 8 klst flug til Seattle. Algjörlega frábært. Takk. Bara takk kærlega,“ skrifaði Pétur í færslu sinni og uppskar þó nokkur viðbrögð.

Sveinn Þór Sigþórsson, starfsmaður Icelandair og flugspekúlant, var fljótur að taka upp hanskann fyrir vinnustað sinn og svaraði Pétri: „Í viku sem þessari þar sem Delta hefur t.d. aflýst 4000 flugum þá er forgangsröðunin slík að aðalatriðið er að halda öllu gangandi, þó það sé svekkjandi að vélar án afþreyingakerfis lendi á löngum leiðum líkt og SEA þá er það nú skömminni skárra en að sitja fastur í KEF.“

Lausnin er einföld - þú flýgur berbakt

Þar fékkst skýring á skjáleysinu en annar X-verji, frumkvöðullinn og sósíalistinn Jökull Sólberg, kom færandi hendi með lausn við vandamálinu og benti á umfjöllun Independent um flugtrend sem tröllríður nú TikTok.

Trendið gengur undir hinu undarlega nafni „rawdog“ sem lýsir vanalega því að stunda samfarir án smokks. Í samhengi flugsamgangna gengur rawdog, sem á fínni íslensku mætti þýða sem að fljúga berbakt, út á að sitja aðgerðarlaus í frið og ró heilt flug.

Það er að segja fólk sviptir sig allri afþreyingu, veitingum og svefni. Það má ekki horfa á myndir, hlusta á tónlist, lesa bók, leggja sig eða neyta matar og drykks. Fólk má bara sitja eitt með sjálfu sér og hugsunum sínum.

Móðir sem rawdoggar öll flug

Á TikTok keppast notendur við að segja frá rawdog-metum sínum, níu, tíu og ellefu tíma löngum flugferðum þar sem þeir sitja algjörlega aðgerðarlausir. Einnig segir fólk að það að fara berbakt í flug sé fullkomin dópamín-afvötnun.

Ferða-áhrifavaldurinn Sophi Cooke birti myndband af móður sinni á TikTok og lýsir henni sem rawdoggara af guðs hendi.

@cookestraveltok Queen Pat 😇 #travel #airplane #traveltok #europe #traveltiktok #europe2023 #swissair #airline ♬ original sound - SophiAndyTravel

„Drapplitaður fáni móður minnar er að hún fer berbakt í öll flug, sama hvað þau eru löng. Þetta er hún á níu tíma flugi. Enginn iPad. Engin heyrnartól. Engin bók. Henn líður allavega þægilega!“ skrifar hún við myndbandið. Með drapplitaða fánanum er vísað í hugtakið „red flag“ sem er notað til að lýsa ýmissi hegðun fólks sem eins konar aðvörunarmerki um þeirra innri mann. Drapplitaður fáni er því til marks um eðlilega hegðun.

Lesendur Vísis geta tekið móður Sophi til fyrirmyndar og flogið berbakt. Það er til ýmiss að vinna, frelsi undan skjánum, tími til innri íhugunar og montréttur yfir agalausum vinum og fjölskyldu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.