Körfubolti

Gætu flutt Philadelphia 76ers til New Jersey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Joel Embiid er aðalmaðurinn í liði Philadelphia 76ers.
 Joel Embiid er aðalmaðurinn í liði Philadelphia 76ers. Getty/Tim Nwachukwu

NBA liðið Sixers hefur átt heima í borginni Philadelphiu frá árinu 1963 en nú gæti orðið breyting á því.

Fréttir berast nú af því að borgaryfirvöld í Camden í New Jersey fylki séu að reyna að tæla Philadelphia 76ers yfir til sín.

Þetta hljómar kannski sem langt ferðalag en það er í raun bara yfir Delaware ánna því hún skilur á milli borganna tveggja.

Sixers spila í dag í Wells Fargo Center höllinni í Philadelphiu sem var tekin í notkun árið 1996 en þykir komin til ára sinna. Höllin tekur 21 þúsund manns á körfuboltaleikjum en þar spilar einnig NHL-liðið Philadelphia Flyers.

Allt hefur siglt í strand í viðræðum Sixers og borgaryfirvalda í Philadelphia um nýja höll.

Talsmaður Sixers sagði við Action News að eigendurnir vilji nýja höll og nú sé bara spurning um það hvar hún verður.

Þessi nýja höll gæti því verið byggð í Camden en það þó ólíklegt að Philadelphia 76ers breytist í Camden 76ers. Borgaryfirvöld í Camden eru tilbúin að koma til móts við Sixers og nú er að sjá hvort þessar fréttir ýti við borgaryfirvöldum í Philadelphiu.

Philadelphia 76ers hefur flutt einu sinni áður því félagið byrjaði sem Syracuse Nationals árið 1949 og hélt því nafni til 1963.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×