Daníel Ágúst stýrði leik íslenska liðsins vel og var meðal efstu manna í bæði stoðsendingum og stolnum boltum.
Daníel rétt missti að lokum af stoðsendingatitlinum á EM en hann var efstur fyrir lokaleikina. Hann gaf fimm stoðsendingar í lokaleiknum en það var ekki nóg til að vera efstur í stoðsendingum að meðaltali í leik.
Daníel gaf 7,0 stoðsendingar i leik og var aðeins 0,2 stoðsendingum í leik á eftir Ísraelsmanninum Noam Yaacov. Daníel hefði þurft að gefa tvær stoðsendingar í viðbót til að enda efstur á þessum lista.
Yaacov spilaði þó aðeins fimm leiki á mótinu og því gaf enginn fleiri stoðsendingar í heildina en okkar maður.
Daníel gaf alls 49 stoðsendingar í leikjunum sjö eða fjórum fleiri en Tyrkinn Emre Melih Tunca sem kom næstur.
Daníel var líka í þriðja sæti í stolnum boltum með 2,1 stolinn bolta að meðaltali í leik.
Daníel passaði líka vel upp á boltann því hann var bara með 15 tapaða bolta í leikjum sjö og gaf því 3,3 stoðsendingar á hvern tapaðan bolta.