Íslandsmótið kláraðist á Hólmsvelli í Leiru í dag. Lokadagurinn var einkar spennandi en Aron Snær lék á 14 höggum undir pari vallar á keppnisdögunum fjórum. Þar með setti hann nýtt mótsmet.
Aron Emil Gunnarsson, GOS, varð annar á tólf höggum undir pari. Jafnir í þriðja sæti voru Böðvar Bragi Pálsson, GR og Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, á níu höggum undir pari.
Alls léku 15 kylfingar samtals undir pari vallar.
Aron Emil fékk Björgvinsskálina fyrir framgang sinn á mótinu en hana hlýtur sá áhugakylfingur sem nær bestu skori.

Hulda Clara lék á 289 höggum eða fimm höggum yfir pari vallar og varð Íslandsmeistari í annað sinn. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, var á einu höggi á eftir, og Andrea Björg Bergsdóttir, GKG, varð þriðja.
Hulda Clara fékk Guðfinnubikarinn, sem var veittur í fyrsta sinn, þeim áhugakylfingi sem leikur á besta skorinu í kvennaflokki.