Körfubolti

Tólf ár á milli fjórðu og fimmtu Ólympíu­leika hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren Jackson var og er frábær leikamaður og mun örugglega hjálpa ástralska landsliðinu mikið á ÓL í París.
Lauren Jackson var og er frábær leikamaður og mun örugglega hjálpa ástralska landsliðinu mikið á ÓL í París. Getty/Stefan Postles/

Ástralska körfuboltakonan Lauren Jackson er á leiðinni á Ólympíuleikana í París en hún var valin í tólf manna Ólympíulandslið Ástrala.

Það sem gerir það svo merkilegt er að hún er orðin 43 ára gömul og var hætt í körfubolta í mörg ár. Þetta verða hennar fimmtu Ólympíuleikar en tólf ár líða því á milli fjórðu og fimmtu Ólympíuleika hennar.

Jackson var stórstjarna í WNBA deildinni í mörg ár og spilaði með ástralska landsliðinu á fjórum Ólympíuleikum frá 2000 til 2012. Hún vann silfur í Sydney 2000, Aþenu 2004 og í Peking 2009 en bronsverðlaun á leikunum í London 2012.

„Síðast þegar ég tók var á Ólympíuleikunum þá hafði ekki áhyggjur af því að vera valin af því að ég var stjarna liðsins. Ég er ekki stjarnan lengur. Ég er hlutverkaleikmaður og varð að leggja mikið á mig til að vera valin. Ég er stolt af sjálfri mér,“ sagði Lauren Jackson við AP í Ástralíu.

Engin leikmaður hefur skorað fleiri stig í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna. Þátttaka hennar þýðir jafnframt að það verða 27 ár liðin frá því að hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik sem var árið 1997.

Jackson varð tvisvar meistari í WNBA (2004 og 2010) og þrisvar sinnum valin besti leikmaður WNBA deildarinnar eða 2003, 2007 og 2010. Hún vann Eurolegue líka þrisvar sinnum. Afrekalisti hennar er langur og glæsilegur.

Jackson lagði skóna á hilluna árið 2016 og spilaði ekki körfubolta í sex ár. Árið 2022 tók hún fram skóna á ný og sýndi að hún er enn frábær leikmaður. Hún hjálpaði Southside Flyers að verða ástralskur meistari í vor sem var hennar sjöundu meistaratitill í áströlsku deildinni.

Það er varla hægt að taka undir það að hún sé hlutverkaleikmaður. Miðað við tölur hennar í áströlsku deildinni þá er hún enn stjörnuleikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×