Íslenska liðið vann frækinn 0-1 sigur gegn Englendingum síðastliðinn föstudag í síðasta leik enska liðsins fyrir EM, en Jóhann segir að íslensku strákarnir hafi verið fljótir að koma sér niður á jörðina eftir þann sigur.
„Auðvitað frábær leikur á föstudaginn, en svo þarf bara að einbeita sér strax að næsta leik sem er á morgun [í dag]. Annar erfiður leikur og líka stutt á milli leikja, sem er erfitt,“ sagði Jóhann Berg í samtali við Val Pál Eiríksson á æfingasvæðinu í Hollandi í gær.
„Við erum bara búnir að vera að koma okkur í gang í dag og í gær og vonandi getum við bara gert svipað og á föstudaginn.“
Sigurinn gefi liðinu mikið sjálfstraust
Hann segir eðlilegt að liðið mæti með mikið sjálfstraust í leik dagsins eftir sigurinn gegn Englendingum.
„Algjörlega. Ef þú færð ekki sjálfstraust úr svona leikjum þá held ég að það sé erfitt að næla sér í eitthvað sjálfstraust.“
„Auðvitað gerum við það og reynum svo bara að halda áfram okkar plani og því sem við erum að reyna að byggja á eins og ég hef verið að tala um í undanförnum viðtölum. Þetta er byrjunin á einhverju tímabili hjá okkur og fyrsti leikurinn var frábær. Svo er það bara að ná í aðra eins frammistöðu í leiknum gegn Hollendingum.“
Hann segir þó að leikmenn liðsins séu ekkert að missa sig í gleðinni þrátt fyrir sigurinn gegn Englendingum.
„Eins og ég sagði þá eru þetta æfingaleikir og við megum ekki fara of hátt upp í leikjum eins og þessum. Svo er líka stutt á milli leikja eins og ég segi þannig það þarf að passa sig hversu hátt maður fer í þessu öllu saman.“
„Þetta verður auðvitað gríðarlega erfiður leikur. Fullur völlur hér og þeir að kveðja Hollendingana sem eru að fara á EM. Þannig að það væri bara tilvalið að eyðileggja annað partý,“ sagði Jóhann sposkur að lokum.
Ísland og Holland mætast klukkan 18:45 annað kvöld. Leikurinn verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.