Hann er pólskur og hefur átt heima í Danmörku síðan 2019. Hann var bæði undir áhrifum fíkniefna og áfengis þegar hann veittist að forsætisráðherranum með því að kýla hana með krepptum hnefa í upphandlegginn. Danska ríkisútvarpið greinir frá.
Maðurinn var leiddur fyrir dómara upp úr klukkan eitt í dag á dönskum tíma þar sem hann var úrskurðaður í tólf daga gæsluvarðhald. Dómari sagði ákvörðun sína byggja á því að ætla mætti að maðurinn hafi vel vitað hver Mette Frederiksen var og vísvitandi veist að henni. Þá taldi dómarinn hættu á að maðurinn myndi flýja land.
Maðurinn var, samkvæmt lögregluskýrslu sem lesin var upp fyrir dómara, undir miklum áhrifum áfengis og angaði af brennivíni. Einnig var hann svo sljór að hann þurfti aðstoð við að koma sér inn í lögreglubílinn.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá nei, ekki svo mikið,“ svaraði árásarmaðurinn aðspurður um hvað hann hefði verið að hugsa þegar árásin átti sér stað.