Erlent

Fara­ge snýst hugur og býður sig fram til þings

Kjartan Kjartansson skrifar
Fáir hafa haft djúpstæðari áhrif á bresk stjórnmál undanfarin ár en Nigel Farage sem tilkynnti um framboð til þings í dag. Þrýstingur hans varð til þess að Íhaldsflokkurinn hélt á endanum þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr ESB.
Fáir hafa haft djúpstæðari áhrif á bresk stjórnmál undanfarin ár en Nigel Farage sem tilkynnti um framboð til þings í dag. Þrýstingur hans varð til þess að Íhaldsflokkurinn hélt á endanum þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr ESB. AP/Yui Mok

Nigel Farage, einn helsti hvatamaðurinn að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, ætlar að bjóða sig fram til þingsetu í kosningunum sem fara fram í næsta mánuði. Upphaflega ætlaði Farage að sitja hjá og hjálpa Donald Trump vini sínum að ná kjöri í Bandaríkjunum.

Tilkynning Farage í dag þykir áfall fyrir Íhaldsflokk Rishi Sunak forsætisráðherra. Skoðanakannanir benda til stórsigurs Verkamannaflokksins en Umbótaflokkur Farage er líklegur til þess að dreifa atkvæðum íhaldssamra kjósenda. Umbótaflokkurinn hefur mælst með um tíu prósent fylgi í könnunum á landsvísu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Farage hefur sjö sinnum boðið sig fram til þings áður en aldrei haft erindi sem erfiði. Flokkur hans ákvað að bjóða ekki fram fólk í kjördæmum þingmanna Íhaldsflokksins til þess að dreifa ekki atkvæðum Brexit-sinna í kosningunum árið 2019.

Sunak sagði að atkvæði greitt Umbótaflokknum hjálpaði Verkamannaflokknum til sigurs þegar hann var spurður hvort hann óttaðist framboð Farage í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×