Erlent

Annar hvirfilbylurinn í Oklahoma á rúmum mánuði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fjöldi fólks missti heimili sitt í óveðrinu. 
Fjöldi fólks missti heimili sitt í óveðrinu.  AP

Að minnsta kosti einn lét lífið þegar hvirfilbylur reið yfir nærri borginni Tulsa í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum í dag. Minnst þrjátíu heimili eyðilögðust og íbúar í bænum Barnsdall, nærri Tulsa, var gert að rýma heimili sín. 

Einungis fimm vikur eru síðan hvirfilbylur reið yfir í sama ríki svo tjón varð á heimilum og innviðum, að því er kemur fram í AP. Veðurstofu Bandaríkjanna hefur borist sautján tilkynningar um hvilfilbylji í mið-Bandaríkjunum síðan í gær. 

Átta þeirra voru í Oklahoma, tveir í Kansas, Suður-Dakóta og Iowa og einn í Nebraska, Missouri og Tennesse. Hvirfilbyljirnir eru hluti af miklum veðurofsa sem gert hefur vart við sig víða um heim. Svæsin hitabylgja hefur riðið yfir Suðaustur-Asíu og flóð vegna hamfararigninga í Brasiliu hafa orðið tugum að bana. 

Óveðrið hófst á mánudagsmorgun þegar miklar rigningar og rok reið yfir hluta Oklahoma-ríkis. Í gærkvöldi bárust síðan tilkynningar um hvirfilbylji í norðurhluta ríkisins.

Einn lést í hvirfilbylnum sem reið yfir í dag og enn er eins saknað. Viðbragðsaðilar í Barnsdall björguðu 25 manns, þar á meðal börnum, úr rústum sem urðu til þegar heimili þeirra urðu hvirfilbylnum að bráð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×