Það er ítalski félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano sem að greinir frá þessu í færslu á samfélagsmiðlinum X núna í morgun.
Lopetegui tekur því við stöðunni af Skotanum David Moyes sem hefur haldið utan um stjórnartaumana hjá West Ham undanfarin tímabil og meðal annars stýrt liðinu til sigurs í Sambandsdeild Evrópu.
Romano segir Lopetegui hafa komist að samkomulagi við forráðamenn West Ham um kaup og kjör. Samkomulag um grunnatriði samningsins sé í höfn. Nú eigi bara eftir að skrifa undir.
Hinn 57 ára gamli Lopetegui hefur yfir mikilli reynslu að skipa frá sínum þjálfaraferli. Hann hefur meðal annars þjálfað spænska landsliðið, Real Madrid, Sevilla og nú síðast Wolves í ensku úrvalsdeildinni og kemur því ekki blautur á bakvið eyrun í enska boltann.
West Ham er sem stendur í 9.sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 49 stig þegar að liðið á tvo leiki eftir. Hamrarnir komust alla leið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar á tímabilinu en féllu úr leik þar í einvígi sínu gegn Bayer Leverkusen.
🚨⚒️ EXCL: Julen Lopetegui has agreed terms with West Ham to become new head coach replacing David Moyes from next season.
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) May 6, 2024
Lopetegui has accepted #WHUFC proposal, ready to proceed to formal stages.
Details being finalised then contracts will be signed but agreement in place. pic.twitter.com/guHfAj7PMv