Lífið

Swing og hópkynlíf fyrir byrj­endur!

Indíana Rós Ægisdóttir skrifar
Indíana Rós er kynfræðingur og með M.Ed gráðu í Kynfræði frá Widener University auk þess að vera með BSc í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík.
Indíana Rós er kynfræðingur og með M.Ed gráðu í Kynfræði frá Widener University auk þess að vera með BSc í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Vísir

Á undanförnum árum hefur áhugi og umræða um swing, sem er oft kallað „lífstíllinn’’, hópkynlíf og fjölkær sambönd aukist nokkuð. Þetta eru þó öll fyrirbæri sem hafa lengi verið til sögulega séð og alls ekkert ný af nálinni. Enn fremur benda rannsóknir til þess að til dæmis sé hópkynlíf ein algengasta kynferðislega fantasía fólks og því eðlilegt að forvitni sé til staðar.

Að prófa sig áfram í einhverju af þessum fjölbreyttu formum sambanda og samskipta getur verið spennandi en á sama tíma getur það verið smá ógnvekjandi og vakið upp óöryggi til að byrja með. En smá fræðslu og góðum undirbúningi er hægt að efla sjálfstraustið í að þora taka af skarið!

Kynlífið með Indíönu Rós kynfræðingi er nýr vikulegur liður á Vísi. Í honum fræðir Indíana Rós lesendur um kynlíf og svarar spurningum frá lesendum. Ef þú vilt senda Indíönu Rós spurningu er hægt að finna spurningaform neðst í greininni.

Hópkynlíf er ein algengasta kynferðislega fantasían.Vísir/Getty

Byrjum bara á einföldum útskýringum á nokkrum hugtökum:

Hvað er lífstíllinn eða swing?

Swing eða lífstílinn vísar til para sem ákveða saman að stunda kynlíf með öðrum pörum eða einstaklingum. Það eru ýmsar ástæður fyrir því fólk vill prófa - sum pör til að fá ákveðna breytingu í kynlífinu sínu eða einfaldlega vegna þess að þau eru forvitin og vilja skemmta sér.

Hvað er hópkynlíf?

Hópkynlíf felur í sér kynlíf með fleiri en tveimur einstaklingum. Þetta getur verið þriggja eða fjögurra manna leikur eða jafnvel með stærri hóp. Hópkynlíf getur verið skipulagt eða óformlegt og fer oft fram í öruggu og samþykktu umhverfi eins og kynlífsklúbbum eða í einkapartýum.

Hvað eru fjölkær sambönd?

Fjölkær sambönd eru sambönd þar sem fólk er í upplýstum, samþykktum og meðvituðum samböndum með fleiri en einum aðila. Hér má lesa meira um fjölkær sambönd.

Það er ekkert endilega svart/hvítur munur á þessum fjölbreyttu formum og ekki er sjálfgefið að allt sé svona klippt og skorið. Til dæmis myndi swing alveg geta talist sem hópkynlíf, og pör í fjölkærum samböndum geta alveg tekið þátt í „lífstílnum”. Í öllu þessu er klárt mál að hér er alls ekki verið að lýsa framhjáhaldi eða afsökunum fyrir því, heldur er ávallt skýrt samþykki og samtal á milli viðeigandi aðila þar sem öllum líður varðandi hvað á sér stað.

Áður en þið byrjið:

1. Ræðið saman:

Opin og heiðarleg samskipti eru grundvallaratriði. Pör sem íhuga opna samband sitt á einn eða annan hátt, ættu fyrst að ræða væntingar, mörk, langanir og öryggismál. Það er mikilvægt að öll séu á sama máli og allir þættir séu mjög skýrir fyrir alla hlutaðeigandi aðila.

2. Setjið reglur:

Ákveðið hvað er leyfilegt og hvað ekki. Þetta getur verið allt frá því hvað má og má ekki í kynlífi og samskiptum með öðrum, hvernig getnaðar- og kynsjúkdómavörnum er háttað, hvernig ætti að bregðast við ef einhver finnur fyrir öfundsýki eða óþægilegum tilfinningum í miðjum leik. Gott er að nefna að oft setur fólk strangari reglur til að byrja með og svo losnar oft um þessar reglur með tímanum þegar fólk hefur öðlast aukna reynslu.

3. Veljið rétta vettvanginn:

Leitið að viðburðum eða stöðum sem bjóða upp á öruggt og þægilegt umhverfi. Þetta gæti verið kynlífsklúbbur erlendis eða einkapartý með gestgjöfum sem þið treystið. Þá getur verið að þið viljið fyrst byrja á að hitta par eða einstakling á kaffihúsi eða í matarboði þar sem engar væntingar til kynlífs eða annara athafna eru, til að sjá hvernig þið náið saman.

4. Blessuðu tilfinningarnar

Það er eðlilegt að upplifa alls konar tilfinningar og það „má” upplifa spennu og stress fyrir sama atburðinum á sama tíma. Talið um upplifanir ykkar og tilfinningar á hreinskilinn hátt. Það þarf að hlusta vel á sín mörk og vera skýr og heiðarleg/ur/t, þá er ekki síður mikilvægt að virða mörk annarra og setja engan þrýsting á að gera eitt eða neitt sem aðili hefur ekki sagst tilbúin/n/ð í.

Hjá pari sem er að fara prófa sig áfram geta verið mismunandi langanir til staðar og fólk tilbúið að prófa mismikið. Vísir/Getty

5. Að mæta ólíkum löngunum

Hjá pari sem er að fara prófa sig áfram, geta skiljanlega verið mismunandi langanir og fólk tilbúið að prófa mismikið. Þá þarf sá sem tilbúin/n/ð að gera meira alltaf að minnka sínar væntingar til að mæta þeim sem er tilbúin/n/ð í minna. Til dæmis -ef aðili A og B eru til í að fara í leik með öðru pari. A er til í að stunda samfarir með öllum aðilum, en B er ekki tilbúin/n/ð í samfarir með öðrum, þá þarf A að minnka sínar væntingar og aðlaga sig að því sem B vill og því munu samfarir ekki eiga sér stað í það skiptið.

Allt þetta og fullt fleira ræddum ég og Sigga Dögg kynfræðingur í þættinum hér að neðan. Þar ræddum við hvar má finna fólk í svipuðum hugleiðingum og varðandi ofangreind málefni og við ræddum fleiri ráð sem gott er að hafa í huga áður fólk lætur vaða!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.