Enski boltinn

Segir að VAR skaði í­mynd enska boltans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, kvartar eftir jafnteflið við Aston Villa.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, kvartar eftir jafnteflið við Aston Villa. getty/James Baylis

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að notkun myndbandsdómgæslu (VAR) skaði ímynd enska boltans.

Chelsea lenti 2-0 undir gegn Aston Villa í síðasta leik gærdagsins í ensku úrvalsdeildinni. En Bláliðar jöfnuðu með mörkum Nonis Madueke og Conors Gallagher.

Axel Disasi skoraði svo fyrir Chelsea í uppbótartíma en markið var dæmt af eftir skoðun á myndbandi.

Pochettino og hans menn voru æfir eftir leik og mótmæltu harðlega. Pochettino var svo ekki runnin reiðin þegar hann mætti í viðtal skömmu síðar.

„Allir sem horfðu á þennan leik eru vonsviknir. Dómarinn sagði að þetta væri brot, dæmdi markið af og skoðaði það svo á myndbandi. Dómarinn er ótrúlegur og þetta er fáránlegt,“ sagði Pochettino.

„Það er erfitt að sætta sig við þetta. Í leiknum gegn Manchester City í undanúrslitum bikarkeppninnar áttum við að fá vítaspyrnu vegna hendi en það var ekki skoðað. Það er sárt að þetta sé að skaða ímynd enska boltans. Ég held að Villa-menn og stuðningsmenn þeirra hafi ekki skilið af hverju markið var dæmt af. Ef öll svona atvik væru skoðuð myndum við ekki enda með ellefu leikmenn inni á vellinum. Við getum talað um frammistöðuna eða ákvörðunina. Þetta er að skemma leikinn.“

Chelsea er í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 48 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×