Mourinho hafði tekið við stjórnartaumunum hjá Manchester United eftir tímabilið 2015/16 þar sem að Hollendingurinn Louis van Gaal hafði stýrt Manchester United til sigurs í enska bikarnum
Þegar að Schweinsteiger sneri aftur til Manchester United um sumarið, eftir að hafa farið alla leið í undanúrslit á EM með þýska landsliðinu, var hins vegar ekki tekið vel á móti honum.
„Ég kom inn aðeins seinna en aðrir leikmenn, sökum þess hversu langt við í þýska landsliðinu fórum á EM, og liðið var í æfingarferð í Bandaríkjunum. Fyrsta daginn í endurkomunni æfði ég með Zlatan Ibrahimovic. En næsta dag, á sjálfan afmælisdaginn minn, þegar að ég labbaði inn á æfingasvæði félagsins, kom John Murtough yfirmaður knattspyrnumála að mér og sagði:
„Þú mátt ekki fara inn í búningsklefann. Það eru fyrirmæli frá þjálfaranum.“
Gary Neville var auðsjáanlega mjög hissa þegar að Schweinsteiger tjáði honum þetta og spurði hann hvort þetta hafi gerst án nokkurrar viðvörunar og hvort að þetta hefði verið gert opinbert.
„Engin viðvörun. Hann stóð bara þarna og sagði mér þetta. Auðvitað var það ekki auðvelt fyrir hann að tjá mér þessar fréttir.“
Schweinsteiger fékk ekki einu sinni að fara inn í búningsklefann til þess að sækja dótið sitt. Murtough sjálfur fór inn og sótti það sem Þjóðverjinn átti þar.
„Ég færði mig yfir í búningsklefa undir 16 ára liðsins, æfði með þeim og bað um fund með Mourinho sem ég og fékk. Þar tjáði hann mér að hann teldi mig ekki ánægðan hjá Manchester United vegna þess að áður, þegar að ég hafði verið að glíma við meiðsli, leitaði ég til lækna þýska landsliðsins. Vann að endurhæfingu minni í Þýskalandi undir þeirra handleiðslu en með samþykki Van Gaal.“
Schweinsteiger segist ekki hafa verið ósáttur hjá Manchester United líkt og Mourinho hélt fram.
„Ég var mjög ánægður hjá félaginu. Elskaði að klæðast treyjunni. Ég taldi þetta kannski bara vera smá tímabil sem myndi ganga yfir. Ég átti mér þann draum að spila aftur á Old Trafford.“
Aðspurður hvernig liðsfélagarnir hefðu brugðist við þessum vendingum sagði Schweinsteiger að einhverjir þeirra hefðu sent sér skilaboð og tjáð undrun sína á þessu.
„Ég sá þá ekki oft,“ sagði Schweinsteiger sem spilaði aðeins þrjá leiki fyrir Manchester United umrætt tímabil. Hann skipti svo yfir til Chicago Fire í MLS deildinni í Bandaríkjunum og lagði skóna á hilluna í október árið 2019.