Upp­gjörið og við­töl: HK - ÍA 0-4 | Skaga­menn komnir á blað

Hinrik Wöhler skrifar
Arnór Smárason trúir ekki eigin augum en Viktor Jónsson raðaði inn mörkum í dag.
Arnór Smárason trúir ekki eigin augum en Viktor Jónsson raðaði inn mörkum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Skagamenn gerðu góða ferð upp í efri byggðir Kópavogs í dag en liðið vann HK 4-0 í 2. umferð Bestu deildar karla. Stigin þrjú eru fyrstu stig ÍA á tímabilinu en liðið tapaði á móti Val í fyrstu umferð en HK er enn með eitt stig.

Leikið var í Kórnum og var þetta fyrsti heimaleikur HK á tímabilinu. Fyrsta færi leiksins kom á 19. mínútu þegar Atli Þór Jónasson komst einn á móti Árna Marinó Einarssyni, markverði ÍA, en sá síðarnefndi gerði vel og bjargaði Skagamönnum með góðu úthlaupi.

Á 41. mínútu urðu heimamenn í HK fyrir áfalli en Þorsteini Aroni Antonssyni var vikið af velli eftir að hafa tekið niður Steinar Þorsteinsson. Þorsteinn var kærulaus í öftustu línu og missti boltann frá sér, Steinar var snöggur til og var gott sem sloppinn í gegn en féll við eftir snertingu frá Þorsteini. 

Rauða spjaldið fór á loft.Vísir/Hulda Margrét

Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, var ekki lengi að lyfta upp rauða spjaldinu og heimamenn einum færri sem eftir lifði leiks.

Markalaust var í hálfleik en ljóst var að verkefnið myndi vera erfitt fyrir heimamenn. Það var sýning í síðari hálfleik í boði Skagamanna. Reynsluboltinn Arnór Smárason opnaði markareikning sinn og Skagamanna í Bestu deildinni í ár með laglegu marki á 52. mínútu. Steinar Þorsteinsson sendi boltann á Arnór rétt fyrir utan vítateig sem lagði hann snyrtilega í bláhornið.

Lengi lifir í gömlum glæðum.Vísir/Hulda Margrét

Síðan var komið að Viktori Jónssyni sem var greinilega staðráðinn í að svara fyrir slakan leik í fyrstu umferð. Á 60. mínútu gaf Johannes Vall hnitmiðaða sendingu inn í vítateig HK sem fór yfir Leif Andra Leifsson, fyrirliða HK, og þar var Viktor Jónsson mættur og afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið.

Sex mínútum síðar var það Steinar Þorsteinsson sem gaf lága sendingu út í vítateiginn sem Viktor afgreiddi snyrtilega í fjærhornið framhjá Arnari Frey Ólafssyni í marki HK.

Viktor fullkomnaði þrennuna á 70. mínútu og var markið byggt á sömu uppskrift og annað mark Skagamanna. Johannes Vall gaf frábæra sendingu frá vinstri vængnum sem endaði beint á kollinum á Viktori. Hann var ekki neinum vandræðum með að klára færið og stangaði knöttinn í netið. Þrenna á rétt rúmum tíu mínútum frá Viktori og mörkin urðu ekki fleiri í Kórnum.

Markaskorarnir Arnór og Viktor fagna.Vísir/Hulda Margrét

Atvik leiksins

Það var vendipunktur leiksins þegar Þorsteinn Aron Antonsson fékk beint rautt spjald fyrir að taka Steinar Þorsteinsson niður á 41. mínútu þegar hann var við það að sleppa í gegn. Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, var ekki lengi að fara í rassvasann og lyfta upp rauða spjaldinu.

Fyrsta þrenna Bestu deildarinnar í ár kom í leiknum í dag og er eitt af atvikum umferðarinnar.

Stjörnur og skúrkar

Ansi auðvelt fyrsta val, það er Viktor Jónsson. Afgreiddi færin í síðari hálfleik að miklu öryggi og var besti maður vallarins.

Steinar Þorsteinsson átti frábæran leik einnig, hann fiskaði rauða spjaldið í fyrri hálfleik og átti tvær stoðsendingar í leiknum. Johannes Vall var sannarlega betri en enginn í vinstri bakverðinum, gaf tvær hnitmiðaðar sendingar inn í vítateiginn á Viktor sem enduðu með marki.

Vall átti flottan leik.Vísir/Hulda Margrét

Þorsteinn Aron Antonsson verður að taka á sig að vera skúrkur leiksins. Hann var kærulaus í öftustu línu og mistókst að koma boltanum til baka á Arnar Frey í marki HK og í kjölfarið fékk hann klaufalegt rautt spjald sem breytti leik HK.

Þó að HK var einum færri þá var varnarleikurinn í síðari hálfleik hreint út sagt afleitur og Skagamenn áttu afar auðvelt með að opna vörn heimamanna.

Dómarar

Erlendur Eiríksson náði stóru ákvörðun leiksins réttri. Þó að heimamenn mótmæltu og snertingin milli Steinars og Þorsteins var ekki ýkja mikil verðskuldaði þetta rautt spjald þar sem Steinar var gott sem sloppinn inn fyrir.

Stemning og umgjörð

Það var ekki hægt að segja að Bar fólksins hafi verið smekkfullur fyrir leik en mun fleiri gestir voru í fermingarveislunni í rýminu hliðin á. Dræm mæting á barinn skýrist hugsanlega af því að bróðurpartur stuðningsmanna HK á vellinum í dag voru í yngri kantinum, krakkarnir í Kópavogi þurftu sannarlega ekkert söngvatn til að halda uppi stuðinu.

Það heyrðist minna í stuðningsmönnum ÍA en vonum að þau láti sjá sig á næstu leikjum Skagans eftir þennan stórsigur.

„Ekkert með það að gera að við séum einum færri eða ekki“

Ómar Ingi og hans hundtryggi aðstoðarmaður, Ragnar Sigurðsson.Vísir/Hulda Margrét

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var vonsvikinn í lok leiks en honum fannst leikurinn vera í járnum í fyrri hálfleik.

„Mér fannst leikurinn bara jafn. Ágætis tækifæri til að búa sér til eitthvað hjá báðum liðum en bara jafnt og svona nokkurn veginn eins og ég bjóst hann yrði,“ sagði Ómar um frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik.

Það voru ekki mikil mótmæli af varamannabekk HK við rauða spjaldið og var Ómar Ingi sammála dómara leiksins.

Réttur dómur?

„Já, nema þið hafið séð eitthvað annað. Mér sýndist hann vera aftastur og þá er þetta rétt,“ sagði Ómar.

Í síðari hálfleik hrundi varnarleikur heimamanna og samkvæmt Ómari þá er ekki hægt að afsaka slíka frammistöðu með því að vera einum færri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira